Innlent

Sveitarfélögin munu fá aukið hlutverk

Halldór Halldórsson
Halldór Halldórsson
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir viðbúið að frekari verkefni muni færast frá ríki til sveitarfélaga. Þegar rætt er um að endurskoða rekstur hins opinbera verði einnig að horfa til sveitarfélaganna; þau séu fjármögnuð með skattfé líkt og ríkissjóður. Út frá þjónustuþætti og þeirri nánd sem sveitarfélögin búi yfir sé jákvætt að flytja fleiri verkefni þangað. Hann segir að skoða verði hvort í einhverjum tilvikum sé verið að bjóða meiri þjónustu en þörf sé á.

„Ég er ekki frá því. Mér finnst mjög eðlilegt að við endurskoðum þetta allt saman og veltum því fyrir okkur hvort verið sé að ofþjónusta einhverja þætti. Er verið að veita þjónustu sem fólk mundi ekki finna fyrir væri hún afnumin?“

Halldór segir slíka endurskoðun fylgja því að menn hafi minna á milli handanna. Mikilvægt sé þó að samfélagsgerðinni sé ekki umturnað. „Þrátt fyrir svona endurskoðun erum við ekki að fara út úr því velferðarsamfélagi sem við búum við. Það er ramminn og við ætlum ekki út úr honum.“

Halldór segir einboðið að sveitarfélög verði að stækka og eflast til að takast á við aukin verkefni. Það þýði aðeins frekari sameiningu. Hann bendir á að á Norðurlöndunum sjái sveitarfélögin um 50 til 60 prósent af allri opinberri þjónustu. Hér á landi sé sú tala rúmlega þriðjungur. Rétt sé að stefna í átt til norræna kerfisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×