Áhættuleikari lét lífið við tökur á hasarmyndinni The Expendables 2 nú á fimmtudag. Tökur á myndinni fara fram í borginni Sofiu í Búlgaríu og staðfestu þarlend yfirvöld fréttirnar.
Áhættuleikarinn var staddur á gúmmíbát ásamt tveimur öðrum þegar slysið átti sér stað, engar upplýsingar hafa verið veittar um hvað olli slysinu. Áhættuleikarinn lét lífið en hinir tveir slösuðust alvarlega.
The Expendables 2 er framhald samnefndrar kvikmyndar sem kom út árið 2010 og skartar öllum helstu hasarstjörnum níunda og tíunda áratugarins. Arnold Schwarzenegger, Sylvester Stallone, Jason Statham, Jean-Claude Van Dam, Jet Li, Bruce Willis og Liam Hemsworth eru á meðal þeirra sem fara með hlutverk í myndinni.
Áhættuleikari lést við tökur
