Innlent

Femínistafélagið: Konur í badminton gerðar að sýningargripum

Konur í Badminton. Myndin er úr safni.
Konur í Badminton. Myndin er úr safni.
Femínistafélag Íslands skorar á Badmintonsamband Íslands að standa með konum og mótmæla nýjum reglum um klæðaburð kvenna í badminton.

Þetta kemur fram í ályktun félagsins vegna nýrra reglna stjórnar Alþjóðabadmintonsambandsins, sem hefur ákveðið að konur skuli klæðast pilsum þegar þær keppa á stórmótum.

Fram kemur í ályktun femínistafélagsins að rökstuðningurinn fyrir ákvörðuninni er sá að það stuðli að auknu áhorfi og vinsældum íþróttarinnar að gera konurnar „kvenlegri“.

Svo segir orðrétt í ályktuninni:

„Með þessu er verið að gera konur í badminton að sýningargripum, á kynferðislegum forsendum.

Athygli er beint að líkama leikkvenna, í stað íþróttarinnar, og þannig gert lítið úr hæfileikum þeirra og hinni miklu vinnu og tíma sem konur í badminton leggja á sig til að ná árangri.

Það er sorglegt að einstaklingar sem fara við völd í heimi íþrótta skuli líta á konur og líkama kvenna sem tæki til markaðssetningar. Femínistafélagið undrast jafnframt að á 21. öldinni sé verið að setja reglur um og íhlutast um klæðaburð kvenna.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×