Innlent

Hugmyndir um reykingabann skerða listrænt frelsi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hugmyndir níu þingmanna um að setja kvaðir á listamenn um reykingarleysi skerðir listrænt frelsi. Þetta segir Kjartan Guðjónsson leikari þegar Vísir spyr hann út í málið.

Í þingsályktunartillögu sem lögð var fram í dag, um 10 ára aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir, segir að óæskilegt sé að leikarar reyki í íslenskum bíómyndum og á leiksviðum og að það ætti að setja tilmæli um að draga úr því í lög eða reglugerð. „Leikrit og kvikmyndir sem reykt er í ættu ekki að fá opinbera styrki eða annan stuðning af skattfé," segir í þingsályktunartillögunni.

„Já, mér finnst það," segir Kjartan Guðjónsson spurður hvort að þetta sé skerðing á listrænu frelsi. „Á móti kemur, að ég reyki nú sjálfur, og mér finnst ekkert þægilegt þegar ég er látinn reykja í sjónvarpi og svona þáttum," segir Kjartan. Hann segir líka að það sjáist alltaf þegar fólk sem ekki reyki sé látið reykja í bíómyndum. „Það verður svona tilgerðarlegt," segir Kjartan. Hann segist ekki vera einn um þessa skoðun sína „Mönnum finnst það vera skrýtið þegar er verið að reykja á leiksviði og í bíómyndum og svona," segir Kjartan.

Kjartan bendir aftur á móti á að stundum krefjist verkið þess að reykt sé og þá sé það allt í lagi. „Ef það krefst þess þá finnst mér ekki að það eigi að vera til einhver einhver lög eða reglugerðir sem banna það," segir Kjartan.

Eins og Vísir greindi frá fyrr í dag gerir fyrrnefnd þingsályktunartillaga einnig ráð fyrir því að tóbakssala verði bönnuð annarsstaðar en í apótekum.




Tengdar fréttir

Þingmenn leggja til að sala tóbaks verði bönnuð

Bannað verður að selja tóbak, annarsstaðar en í apótekum, verði þingsályktunartillaga sem liggur fyrir Alþingi samþykkt. Það er Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×