Innlent

Of miklar kröfur gerðar til ungra barna í skýrslutökum

Þorbjörg Sveinsdóttir. Mun meiri líkur eru á því að kynferðisbrotamenn sem brjóta gegn börnum séu ákærðir ef framburður barna er nákvæmur. Kært er í 16% mála yngstu barnanna, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar.
Þorbjörg Sveinsdóttir. Mun meiri líkur eru á því að kynferðisbrotamenn sem brjóta gegn börnum séu ákærðir ef framburður barna er nákvæmur. Kært er í 16% mála yngstu barnanna, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar.
Mun meiri líkur eru á því að kynferðisbrotamenn verði ákærðir fyrir kynferðisofbeldi gegn börnum, þegar framburður barnanna er greinargóður og þau geta greint skýrlega frá ofbeldinu. Aldur barnanna hefur mikil áhrif á ákæru og varða þær langflestar börn á aldrinum 12 til 14 ára. Einungis er ákært í 16 prósentum mála þegar börn á aldrinum 3 til 5 ára eiga í hlut.

Þetta eru niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar sem Þorbjörg Sveinsdóttir, starfsmaður Barnahúss, vann sem lokaverkefni sitt í mastersnámi í sálfræði við Háskóla Íslands.

Skoðaður var framburður 285 barna sem komu í skýrslutöku í Barnahús á rúmlega fimm ára tímabili, frá árinu 1998 til 2003, vegna gruns um að hafa sætt kynferðislegu ofbeldi. Markmið rannsóknarinnar var að skoða tengsl barna í skýrslutökum í Barnahúsi við orðalag í ákærum og dómsniðurstöður.

„Það eru gerðar miklar kröfur til barna í skýrslutökum. Þau eru beðin um smáatriði, nákvæmar lýsingar og beðin um að lýsa tilfinningum sínum. Það getur reynst mjög erfitt fyrir ung börn, sem er sennilega hluti af skýringunni hvers vegna hærra hlutfall þeirra mála sem ákært er í eru börnin á aldrinum 12 til 14 ára,“ segir Þorbjörg. Í 75 prósentum tilvika greindu börnin frá kynferðislegu ofbeldi þegar þau komu í Barnahús. Ákært var í málum 33 prósenta barna, þar af 42 prósenta barna sem greindu frá ofbeldinu. Fimm börn höfðu ekki greint frá, en þar var samt sem áður ákært. Var það vegna játninga gerenda og vitnisburða annarra einstaklinga.

Orðalag í þeim ákærum sem gefnar voru út var í 74 prósentum tilvika í samræmi við framburð barns.

Alls voru 63 gerendur ákærðir fyrir kynferðisbrot í 95 málum. Um 60 prósent gerenda brutu gegn einu barni en tæp 40 prósent gegn fleiri en einu. Meiri líkur eru á ákæru þegar tengsl geranda og barns voru utan fjölskyldu. Rannsakendur hafa flokkað niður alvarleika kynferðisbrota eftir stigum, vægustu brotin stig eitt og þau alvarlegustu stig fimm. Ákært var í 60 prósentum tilvika þegar brot var á alvarleikastigi fjögur, en aðeins í 25 prósentum á alvarleikastigi fimm. Brot gegn börnum á aldrinum 3 til 5 ára voru öll á alvarleikastigum þrjú til fimm.

Þorbjörg segir að miðað við niðurstöður rannsóknarinnar sé tvisvar sinnum líklegra að gefin sé út ákæra ef kynferðisbrot gegn börnum séu endurtekin. Þá er það um átta sinnum líklegra ef frásögn barns sé nákvæm.

„Helsta og eina forspá þess að sakborningur sé sakfelldur er að hann hafi brotið gegn tveimur eða fleiri börnum,“ segir Þorbjörg.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×