Erlent

Ætluðu að drepa eins marga og þeir gætu

Jón Þór Stefánsson skrifar
Tónleikarnir áttu að fara fram á Ernst-Happel-leikvanginum.
Tónleikarnir áttu að fara fram á Ernst-Happel-leikvanginum. Getty

„Ástandið var alvarlegt og ástandið er alvarlegt, en við getum líka fullyrt að við komum í veg fyrir harmleik,“ segir Gerhard Karner, innanríkisráðherra Austurríkis um hryðjuverkaárás sem tveir táningar eru grunaðir um að hafa áætlað að fremja í Vín, í kringum tónleika poppstjörnunnar Taylor Swift í borginni.

Greint var frá því í gærkvöldi að tveir hefðu verið handteknir vegna málsins. Annars vegar nítján ára gamall austurrískur ríkisborgari sem aðhylltist Íslamska ríkið.

Nú er greint frá því að hinn handtekni sé sautján ára austurrískur ríkisborgari af tyrkneskum og króatískum uppruna. Sá mun hafa verið handtekinn skammt frá leikvangnum þar sem tónleikar Swift áttu að fara fram.

AP-fréttastofan hefur eftir yfirvöldum í Austurríki að piltarnir hafi ætlað að fremja árás fyrir utan leikvanginn. Þeir hafi ætlað sér að drepa eins marga og mögulegt var með hnífum og heimagerðum sprengjum.

Sakborningurinn sem er nítján ára gamall mun hafa játað aðild sína í málinu að fullu. Yfirvöld segja hann trúa hugmyndafræði Íslamska ríkisins algjörlega og að hann telji sig eiga rétt á því að myrða heiðingja.

Hinn sakborningurinn, sá sem er sautján ára, hafði fyrir nokkrum dögum verið ráðinn í vinnu af fyrirtæki sem sér um að aðstoða leikvanginn fyrir tónleika sem þessa. Í húsleit á heimili hans hafi fundist munir sem tengjast Íslamska ríkinu og al-Qaida.

Lögregluyfirvöld segjast ekki hafa í hyggju að handtaka fleiri vegna málsins að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×