Innlent

Umsagnir stöðva ekki sameiningarnar í bili

Mikill meirihluti umsagna er neikvæður í garð fyrirhugaðra breytinga í skólamálum. Minnihlutinn vill staldra við en meirihlutinn segir málið í góðu ferli. Fréttablaðið/Heiða
Mikill meirihluti umsagna er neikvæður í garð fyrirhugaðra breytinga í skólamálum. Minnihlutinn vill staldra við en meirihlutinn segir málið í góðu ferli. Fréttablaðið/Heiða
Mikill meirihluti af umsögnum sem borgaryfirvöldum barst vegna fyrirhugaðra breytinga í skólakerfi Reykjavíkur er neikvæður gagnvart framkomnum hugmyndum.

Umsagnirnar voru til umræðu á borgarstjórnarfundi á þriðjudag og var tillögu minnihlutans um að draga tillögurnar til baka vísað frá.

Fulltrúar meirihlutans sögðu verkefnið vera „í góðu ferli“ og umsagnirnar yrðu nú ræddar í íþrótta- og tómstundaráði og menntaráði.

Í upphafi mars óskaði borgarráð eftir umsögnum frá skólaráðum, foreldrafélögum, hverfisráðum, fagaðilum, ungmennaráðum og fræðasamfélaginu varðandi þær 23 tillögur sem kynntar voru.

Umsagnir skólaráða lúta flestar að meintri óvissu varðandi faglegan og fjárhagslegan ávinning af sameiningum grunnskóla, sem er jafnan talinn óásættanlegur í ljósi þess rasks sem breytingarnar munu hafa á skólastarf. Þá er víða minnst á skort á langtímayfirsýn.

Umsagnir foreldrafélaga í leikskólum eru flestar afdráttarlausar gegn sameiningartillögum.

Í umsögn samtaka starfsfólks og stjórnenda í leikskólum og grunnskólum var skorað á borgaryfirvöld að draga tillögurnar til baka og það sama var í umsögn frá starfsfólki frístundaheimila.

Loks má nefna umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem mælst er til þess að litið sé til lengri tíma. Hægt sé að skilgreina tilraunaverkefni og meta árangur út frá þeim.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í menntaráði, segir í samtali við Fréttablaðið að þótt umsagnirnar séu að mestu leyti mjög neikvæðar, megi greina þar skilning á því að hagræða þurfi.

„Okkur finnst nú vera komið gott tækifæri til að staldra við og vinna málið með hverfunum og foreldrunum. Það er ekki víst að þessi hagræðing skili sér ef fólk er ósátt við breytingar. Fólkið hefur látið sína skoðun í ljós og við í borgarstjórn eigum að sýna að við erum að hlusta. Það fælist hugrekki í því að byrja nú upp á nýtt.“

S. Björn Blöndal, aðstoðarmaður borgarstjóra, sagði í samtali við Fréttablaðið að meirihlutinn myndi ekki tjá sig um umsagnirnar, en málið væri í ferli og niðurstaðna væri að vænta fljótlega.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×