Innlent

Umferðin hefur dregist mikið saman

Páskarnir og eldgos í Eyjafjallajökli setja strik í reikninginn en umferðin er miklu minni en fyrri ár. 
fréttablaðið/gva
Páskarnir og eldgos í Eyjafjallajökli setja strik í reikninginn en umferðin er miklu minni en fyrri ár. fréttablaðið/gva
Umferð í mars var 15,5 prósentum minni en í sama mánuði í fyrra. Mælingar Vegagerðarinnar sýna þetta. Þá dróst akstur saman um 18,1 prósent. Akstur er reiknaður sem umferð á dag margfaldað með lengd vegkafla. Vegagerðin segir að svo mikill samdráttur í umferð og akstri sé fáséður og einsdæmi frá því að byrjað var að taka saman tölurnar árið 2005.

Vegagerðin segir að ef umferð verði með hefðbundnum hætti á árinu og tekið sé mið af því hvernig þróun umferðar hefur verið undanfarin 10 ár megi búast við mesta samdrætti í akstri frá árinu 1975. Þó þurfi að hafa fyrirvara á þessari spá.

Umferðin dróst saman á öllum talningarstöðum Vegagerðarinnar, en þeir eru sextán talsins. Sveiflur í umferð eru venjulega miklar í mars og apríl vegna rysjótts veðurfars og þess hvenær páskar byrja hverju sinni, segir á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Eldgosið í Eyjafjallajökli er þess valdandi að samdráttur á Suðurlandi mælist meiri en ella, en umferð um Suðurland var mjög mikil í mars í fyrra vegna gossins. Umferð um landshlutann er þriðjungi minni nú en í fyrra. Umferðin dróst minnst saman á Austurlandi, eða um 11,5 prósent. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×