Innlent

Sink talið gott gegn flensu en læknir mælir þó ekki með því

Passa þarf að taka ekki of mikið af sinki við flensunni vegna mögulegra eitrunaráhrifa
Passa þarf að taka ekki of mikið af sinki við flensunni vegna mögulegra eitrunaráhrifa
Sink virðist geta dregið úr flensueinkennum og jafnvel gagnast sem lyf við kvefi. Þetta sýna nýjar og viðamiklar rannsóknir. Læknir á Íslandi varar fólk við því að taka inn of mikið sink þar sem aukaverkanir af því gætu orðið alvarlegar.

Fjallað var um rannsóknina í vikunni læknavísindatímaritinu Cochrane Database of Systematic Reviews. Þar segir að mjög sé hægt að draga úr kvef- og flenskueinkennum ef byrjað er að taka sink inn sólarhring eftir að fólk kennir sér fyrst meins.

Vilhjálmur Ari Arason læknir segir niðurstöðurnar áhugaverðar en minnir á að vísindamenn hafi ekki fundið út hver ráðlagður skammtur af sinki eigi að vera í þessu tilfelli. Því sé ekki hægt að mæla með inntöku þess við kvefi og flensu.

„Þarna virðist vera komin vísbending um að efni eins og sink geti virkað en á móti kemur að sink er málmur. Það eru vel þekktar eitranir sem geta orðið af ofskömmtun á málum til dæmis af sinki," segir Vilhjálmur. Hann segir að í Bandaríkjunum hafi sink verið sett í nefsprey en vegna aukaverkanna hafi það verið tekið af markaði. "Í fjölda tilfella hefur fólk hefur misst lyktarskynið og það er mjög alvarleg aukaverkun að missa varanlega lyktarskyn vegna einfaldrar sýkingar, á borð við flensu og kvef, sem gengur til baka af sjálfu sér."

Vilhjálmur segir mikilvægt að halda þessu til haga þar sem sumir eigi til að vera ögn ginkeyptir fyrir nýjungum. Hann vilji vara fólk við að stökkva ekki til og taka sink við kvefi þótt niðurstöður rannsóknanna séu mjög áhugaverðar. Málið þarfnist frekari rannsókna.

„Sink er eitt af þessum snefilefnum sem við þurfum, rétt eins og kopar, og er nauðsynlegt líkamanum til margra hluta svo sem frumuskiptingu. Þannig það er bara eitt af þessum náttúrulegu efnum sem við þurfum en mikilvægt er að fólk geri sér grein fyrir því að við þurfum mjög lítið og við fáum yfirleitt nóg af því með fæðunni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×