Innlent

Íhuga úrsögn úr ASÍ

Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hélt tvo fundi með starfsmönnum Elkem Ísland og Klafa í gær og voru fundirnir haldnir á Gamla kaupfélaginu á Akranesi. Á heimasíðu verkalýðsfélagsins segir að gríðarleg samstaða hafi ríkt á fundinum en kjaradeila vegna stóriðjusamninganna á Grundartanga er komin í „algjöran hnút", eins og það er orðað. Vilhjálmur segir þá stöðu komna upp að verkalýðsfélagið þurfi nú að skoða alvarlega hvort það eigi samleið með ASÍ.

„Vinnur félagið nú að því að reyna að koma í veg fyrir hörð átök á þessu svæði. Eins og staðan er núna er því miður fátt sem getur komið í veg fyrir slíkt," segir í pistli á heimasíðu félagsins. „Það ríkti gríðarleg samstaða og einhugur á fundinum í gær og kom fram í máli fundarmanna að afstaða forystu ASÍ til þess að sækja meira á fyrirtæki sem hafa hagnast gríðarlega vegna gengisfalls krónunnar og hækkandi afurðaverðs sé óskiljanleg á grundvelli þess að menn berjast hatrammlega fyrir því að þessi fyrirtæki skili ekki þeim ávinningi til sinna starfsmanna."

Gremja og reiði á meðal starfsmanna

Þá segir að gremja og reiði ríki á meðal starfsmanna yfir því hvernig forysta ASÍ hafi tekið stöðu gegn starfsmönnum útflutningsfyrirtækja „og komu fram hugmyndir á fundinum í gær hvort ekki væri orðið tímabært að Verkalýðsfélag Akraness segði skilið við slík samtök sem vinna gegn hagsmunum starfsmanna útflutningsfyrirtækja." Vilhjálmur formaður sagði á fundinum að vissulega væri sú staða komin upp að menn þyrftu að fara að „skoða það alvarlega hvort við ættum samleið með slíkum hagsmunasamtökum launafólks ef hagsmunasamtök skyldi yfir höfuð kalla."

„Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar kl. 14 á morgun og er alls ekki ólíklegt að á þeim fundi muni koma í ljós hvort hér stefni til átaka eða ekki. Rétt er að það komi fram að samninganefndin hefur lagt fram ýmsar hugmyndir að lausn á þessu máli á undanförnum fundum án þess að finna fyrir miklum samningsvilja af hálfu Samtaka atvinnulífsins."

Í pistlinum segir ennfremur að gríðarlega erfitt sé að ná saman samningum þegar Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafi tekið höndum saman um það að ekki skuli vera tekið tillit til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja. „En það kom skýrt fram á fundinum í gær að starfsmenn munu ekki sætta sig við slíkt ofbeldi af hálfu ofangreindra aðila."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×