Handbolti

Guðrún Þóra: Núna er bara skemmtileg vika framundan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir.
Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir. Mynd/Vilhelm
„Það er eitt það stærsta sem maður gerir yfir veturinn það er að komast í Höllina," sagði Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir sem skoraði fimm mörk þegar Framstelpur tryggðu sér sæti í bikarúrslitum annað árið í röð með 32-25 sigri á HK í kvöld.

„Við vorum eitthvað höktandi þarna í seinni hálfleiknum en ég veit ekki alveg hvað það var. Við hleyptum þeim aðeins of mikið inn í leikinn," sagði Guðrún Þóra en HK minnkaði muninn í fjögur mörk í seinni hálfleik eftir að Framliðið var tíu mörkum yfir í hálfleik.

„Við vorum sannfærðar um það í hálfleik að þetta væri ekki búið því þetta HK-lið er hörkulið. Þær sýndu það með því að koma til baka. Við ætluðum okkur ekkert að gefa eftir en svona er þetta oft í handbolta," sagði Guðrún Þóra.

Einar Jónsson, þjálfari Fram, tók leikhlé í stöðunni 23-19 og Guðrún Þóra skoraði næstu þrjú mörk leiksins. Fram vann á endanum fyrstu sex mínúturnar eftir leikhléið 6-0 og gerðu út um leikinn.

„Einar talaði ekkert sérstaklega við mig í leikhléinu en ég tók bara til mín það sem hann var að segja. Það var ekkert annað í stöðunni að rífa okkur aftur upp því við ætluðum í Höllina. Einar veit líka hvað hann er að segja," sagði Guðrún Þóra.

„Það verður skemmtilegt að mæta Val og ég er viss um að þetta verður sannkallaður úrslitaleikur. Núna er bara skemmtileg vika framundan," sagði Guðrún Þóra að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×