Innlent

Til höfuðs hálfvitum

Mynd/GVA
Hart var tekist á um sameiningaráform í skólakerfinu á borgarstjórnarfundi í dag. Þar sagði Jón Gnarr, borgarstjóri, málflutning minnihlutans einkennast af skotgrafapólitík, lýðskrumi og að gagnrýnin væri ofbeldi líkust. Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, brást ókvæða við og gerði alvarlegar athugasemdir við ræðu Jóns.

„Ræða borgarstjóra var einkar óviðeigandi. Það fer borgarstjóra sem talar um ofbeldi og skítkast illa að tala um skotgrafir. Það fer borgarstjóra sem ætlar að þvinga í gegn stórkostlegum breytingum gegn rökum og ráleggingum fagfólks illa að tala um ofbeldi. Það fer borgarstjóra sem stofnaði Besta flokkinn til höfuðs spilltum stjórnmálaflokkum og hálfvitunum sem buðu sig fram fyrir þá að tala um lýðskrum. Og það fer borgarstjóra sem heldur úti eigin sjónvarpsþætti illa að tala um misnotkun borgarfulltrúa á fjölmiðlum,“ sagði Sóley.

Þá sagði Sóley: „Borgarstjórinn í Reykjavík hefur talað hér af sama hroka og félagar hans, borgarfulltrúar Samfylkingarinnar. Í ræðum sínum gerðu þau afar lítið úr áhyggjum barna og foreldra í borginni og umfangi verkefnisins. Öll virðast þau vera málefnalega gjaldþrota og þá er leiðin í skotgrafirnar auðrötuð. Það er ámátlegt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×