Innlent

Taldir hafa misnotað lítinn dreng gróflega

Tveir karlmenn sitja nú í gæsluvarðhaldi, grunaðir um kynferðislega misnotkun á ungum dreng. Þetta staðfestir Björgvin Björgvinsson, yfirmaður ofbeldisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hann kvaðst ekki vilja tjá sig um efnisatriði málsins þegar eftir því var leitað að öðru leyti en því að mennirnir hefðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 6. apríl næstkomandi.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst barst málið til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá Barnaverndarnefnd Kópavogs. Mennirnir, sem eru á fertugsaldri og um fimmtugt, voru handteknir síðastliðinn fimmtudag.

Húsleitir voru gerðar heima hjá þeim báðum að fengnum úrskurði dómara. Á báðum heimilunum fundust fíkniefni, bæði maríjúana og hvítt efni sem talið er vera kókaín.

Þá var lagt hald á tölvur beggja mannanna vegna gruns um að í þeim sé að finna myndir sem sýna börn, þar á meðal unga drenginn, á klámfenginn og kynferðislegan hátt.

Mennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald skömmu eftir að þeir voru handteknir.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins leikur grunur á að drengurinn, sem er átta ára gamall, hafi sætt kynferðislegri misnotkun af hálfu mannanna í einhvern tíma og að brotin hafi verið mjög gróf. Annar mannanna, sá um fimmtugt, er faðir drengsins en hinn maðurinn er vinur föðurins, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×