Innlent

Mál Priyönku tekið til skoðunar að nýju

priyanka thapa Útlendingastofnun synjaði umsókn Priyönku þar sem hún taldi ekki nægar sannanir fyrir því að hún yrði neydd í hjónaband eða að hennar biði ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð í Nepal. Fréttablaðið/Vilhelmi
priyanka thapa Útlendingastofnun synjaði umsókn Priyönku þar sem hún taldi ekki nægar sannanir fyrir því að hún yrði neydd í hjónaband eða að hennar biði ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð í Nepal. Fréttablaðið/Vilhelmi
Ögmundur jónasson
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra boðar breytingar á stefnu og regluverki Útlendingastofnunar í kjölfar þess að Priyönku Thapa, 23 ára stúlku frá Nepal, var synjað um dvalarleyfi af mannúðarsjónarmiðum hér á landi. Ögmundur átti fund með stjórnendum Útlendingastofnunar í gærmorgun og í kjölfarið fékk Priyanka tilkynningu um að umsókn hennar yrði endurskoðuð.

Mál Priyönku Thapa hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga. Hún sagði sögu sína upphaflega í Fréttablaðinu síðasta aðfangadag þar sem kom fram að ef hún fengi ekki dvalarleyfi á Íslandi biði hennar þrældómur í heimalandinu. Móðir hennar, sem er einstæð, á orðið erfitt með að framfleyta sér og fötluðum syni sínum. Hún tók því til þess ráðs að gefa Priyönku fertugum manni sem hefur lofað að sjá fyrir fjölskyldunni. Priyanka hefur aldrei hitt manninn. Hún vill heldur búa hér á landi og afla sér frekari menntunar.

Útlendingastofnun synjaði umsókn Priyönku, taldi ekki nægar sannanir fyrir því að hún yrði neydd í hjónaband eða að hennar biði ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð í heimalandi sínu.

Innanríkisráðherra átti fund með stjórnendum Útlendingastofnunar í gærmorgun þar sem farið var yfir stefnu og verklag stofnunarinnar. Síðar um daginn fékk Priyanka þær upplýsingar að umsókn hennar yrði tekin upp að nýju.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fagnar ákvörðun Útlendingastofnunar. „Ég átti fund með Útlendingastofnun í gær þar sem við fórum yfir stefnu og regluverk stofnunarinnar þegar kemur að því að veita fólki dvalarleyfi eða hafna. Þar eru augljóslega margar brotalamir sem verður að laga.“

Ögmundur segir að þeir sem gagnrýni störf Útlendingastofnunar verði að hafa það í huga að starfsmenn hennar vinni eftir þeim reglum og þeirri stefnu sem stjórnvöld setji. „Ef sú stefna er röng verða stjórnvöld að breyta henni og það ætla ég að gera,“ segir innanríkisráðherra.

Sigurður Örn Hilmarsson, lögfræðingur Priyönku, segir að nú verði unnið í umsókninni og frekari gögn lögð fram. „Það er ánægjulegt að sjá að Útlendingastofnun hafi séð að sér með þetta mál,“ segir Sigurður Örn. Hann segir óvíst hvenær niðurstaða fáist í málið. „Það tók þrjá mánuði að afgreiða síðustu umsókn hennar svo stofnunin þekkir málið vel. Ég reikna því ekki með að þetta taki jafn langan tíma núna.“

Ekki náðist í Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, í gær.kristjan@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×