Innlent

Þokast áleiðis í kjaraviðræðum

Vilhjálmur Egilsson og Gylfi Arnbjörnsson ASÍ og SA halda áfram að þrýsta á ríkisstjórnina varðandi fjárfestingar og önnur málefni.FRéttablaðið/Pjetur
Vilhjálmur Egilsson og Gylfi Arnbjörnsson ASÍ og SA halda áfram að þrýsta á ríkisstjórnina varðandi fjárfestingar og önnur málefni.FRéttablaðið/Pjetur
„Við erum að tala okkur nær hver öðrum. Það er enginn búinn að hafna neinu eða samþykkja neitt,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, um ganginn í kjaraviðræðum SA og ASÍ.

„Það hefur hvesst stundum en þetta þokast áfram,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. „Það hefur verið tekist á um launaliðinn. Það endaði með því að SA kom með útspil sem kom til móts við áherslur okkar að þessu leyti.“

Bæði Vilhjálmur og Gylfi segja enn standa upp á ríkisstjórnina til að ná megi samningi til þriggja ára.

„Þetta er háð því að stjórnvöld beiti sér og taki ákvarðanir sem duga til þess að auka hér verulega innspýtingu og fjárfestingar og að hér hefjist hagvaxtarskeið.“ segir Gylfi. „Stjórnvöld verða að taka ákvarðanir, bæði um rammaáætlanir og virkjanir, það gerist ekkert öðruvísi. Það er sjálfsblekking að halda að við getum aukið hagvöxt á óbreyttum umsvifum.“

Vilhjálmur segir mikið velta á því að menn sjái til lands í málum sem snúi að ríkisstjórninni. Meðal annars varðandi stórframkvæmdir og lækkun tryggingargjalds sem skipti afgerandi máli varðandi launahækkanir. Enn sé óvissa um sjávarútveginn. „Við lítum svo á að það sé nauðsynlegt að sjávarútvegurinn sé með í samfélaginu,“ segir framkvæmdastjóri SA.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×