Þeir bræður veiða víða en Grímsáin er í sérstöku uppáhaldi enda hefur hún reynst þeim gjöful í áranna rás. Bræðurnir eru engir nýgræðingar í Grímsá því Eggert hefur veitt þar á hverju sumri í um aldarfjórðung og Þórir var nú að veiða þar 20. árið í röð. Að sögn Eggerts hafa þeir tekið þátt í opnun og lokun árinnar með leigutökum undanfarin ár og þegar allt er talið þá veiða þeir í Grímsá í 15-17 daga á sumri. Þeir bræður eru aldir upp við veiði og fyrstu skrefin í laxveiðinni stigu þeir í Gríshólsá og Bakkaá við Stykkishólm þar sem faðir þeirra var einn leigutaka á sínum tíma. Þar fyrir utan stunduðu þeir vötnin í nágrenninu, s.s. Selvallavatn, og stundum var aflinn svo mikill að þeir komu honum ekki í lóg. ,,Okkur datt í hug að beita silungnum, sem enginn vildi borða, á haukalóð á lúðuveiðum en það gafst ekki vel og lúðan vildi víst ekkert nema síld," segir Eggert.

Mesta veiði bræðranna í Gímsá fram til þessa er 84 laxar á stöngina en sá góði afli fékkst í veiðiferð fyrir tveimur árum. ,,Leiðsögumennirnir voru þá víst búnir að veðja um það hvort við myndum ná 100 löxum í túrnum og við spenntumst báðir upp við þá trú sem menn virtust hafa á okkur. Við slógum heldur ekki slöku við og reyndum eins og venjulega að gera okkar besta og sennilega gott betur. Síðasta morguninn var veðrið hins vegar ekki hagstætt. Við áttum svæði 4 og fengum ekki nema fjóra laxa. Það er ekki hægt að kvarta yfir því," segir Eggert en að hans sögn þá veiða þeir Þórir víða á hverju sumri og hann segist ekki geta hugsað sér betri veiðifélaga. ,,Við erum eins og einn maður þegar veiðin er annars vegar. Ef ég er í stuði og fæ fisk þá held ég áfram og Þórir tekur við á næsta stað og veiðir eins og hann vill. Ég hef verið með veiðifélaga, sem aðeins horfði á klukkuna og mældi veiðitímann nákvæmlega, en með slíkum mönnum veiði ég ekki aftur á stöng," segir Eggert Halldórsson.
Birt með góðfúslegu leyfi Hreggnasa