Gagnrýni

Allt eins og það á að vera hjá Þór

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Chris Hemsworth og Anthony Hopkins leika Þór og Óðin í hasarmyndinni Thor.
Chris Hemsworth og Anthony Hopkins leika Þór og Óðin í hasarmyndinni Thor.
Kvikmyndir

Thor. Leikstjóri: Kenneth Branagh. Leikarar: Chris Hemsworth, Natalie Portman, Anthony Hopkins, Tom Hiddleston, Stellan Skarsgård, Rene Russo.

Það er til ágætis flökkusaga um Bubba Morthens og þegar honum var boðið aðalhlutverkið í Hollywood-kvikmynd um teiknimyndasöguhetjuna Thor. Því miður varð ekki af gerð þeirrar myndar, en núna, rétt um aldarfjórðungi síðar, er loksins komin kvikmynd um þennan vinsæla Marvel-garp.

Sagan er beint eftir uppskriftinni. Ofurhetja berst við ófreskjur og svikula fyrrverandi samherja, verður ástfanginn af „venjulegri" stúlku sem veit ekki að hann er ofurhetja, missir ofurmátt sinn tímabundið en öðlast hann að lokum aftur og bjargar heiminum. Eða í það minnsta deginum. Ég er ekki að skemma neitt fyrir ykkur þar sem þið hafið séð þetta þúsund sinnum áður.

Thor er skemmtileg mynd að mestu. Ég átti erfitt með fyrstu 25 mínúturnar, en þær gerast allar í hinum tölvugerða Ásgarði (sem lítur út eins og framtíðarlegt hommadiskótek) og ég var orðinn smeykur um að ég fengi aldrei að sjá hinum megin við green-screen tjaldið. En þegar Thor missir mátt sinn og er sendur til jarðar byrjar myndin fyrir alvöru.

Chris Hemsworth er þrælskemmtilegur í titilhlutverkinu og efnileg hasarmyndahetja. Hann hefur skrokkinn sem til þarf, er fyndinn og leikur ágætlega. Hopkins er fæddur í hlutverk Óðins og Portman er sæt og fín. Það þarf víst ekki meira til að þessu sinni. En Thor kemst langa leið á húmornum og andrúmsloftið er létt og skemmtilegt eins og teiknimyndasögur voru í gamla daga.

Niðurstaða: Nokkuð vel heppnað ævintýri, þrátt fyrir fjarveru Bubba Morthens.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.