Sport

Nadal og Murray mætast í undanúrslitum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Nadal var ekki lengi að klára Andy Roddick í kvöld.
Rafael Nadal var ekki lengi að klára Andy Roddick í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Það verða sannkallaðar draumaviðureignir í undanúrslitum í einliðaleik karla á opna bandaríska meistaramótinu í tennis á morgun.

Efstu fjórir mennirnir á heimslistanum eru allir komnir í undanúrslit á mótinu en fjórðungsúrslitin kláruðust í kvöld.

Rafael Nadal (2) mætir Skotanum Andy Murray (4) í annarri viðureigninni og þeir Novak Djokovic (1) og Roger Federer (3) í hinni.

Nadal fór í kvöld létt með hinn skrautlega Andy Roddick og vann næsta auðveldlega í þremur settum, 6-2, 6-1 og 6-3.

Fyrr í kvöld hafði Murray betur í jafnri og spennandi viðureign gegn heimamanninum John Isner í fjórum settum, 7-5, 6-4, 3-6 og 7-6.

Murray hafði yfirhöndina í fyrstu tveimur settunum en Isner kom sterkur til baka í því þriðja. Fjórða settið fór á endanum í upphækkun þar sem Murray hafði betur og tryggði sér þar með sigurinn.

Í gær vann Roger Federer öruggan sgiur á Jo-Wilfried Tsonga í þremur settum en Djokovic komst áfram eftir að keppinautur hans í fjórðungsúrslitunum og samlandi, Janko Tipsarevic, þurfti að hætta keppni í fjórða setti vegna meiðsla. Djokovic hafði þá örugga forystu í viðureigninni.

Á morgun fara einnig fram undanúrslit í einliðaleik kvenna. Caroline Wozniacki mætir Serenu Williams í risaslag en í hinni viðureigninni eigast við Angelique Kerber og Samantha Stosur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×