Innlent

Sprengiefni fjarlægt af Goðafossi í dag

SB skrifar
Goðafoss á strandstað. Mynd/ afp.
Goðafoss á strandstað. Mynd/ afp.
Gámar fullir af sprengiefni verða fjarlægðir úr Goðafossi í dag. Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, sagði í samtali við fréttastofu að sprengiefnið hefði forgang þegar byrjað væri að afferma skipið.

Kalt er í veðri í Noregi í dag og hefur það sín áhrif á björgunaraðgerðirnar í Oslóarfirði þar sem Goðafoss strandaði á fimmtudaginn. Um 20 stiga frost er á svæðinu og verður því olían seigfljótandi auk þess sem gæta þarf sérstaklega að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna sem sjá um hreinsun og björgun. Á vefsíðu norsku strandgæslunnar segir að forgangsatriði dagsins í dag sé að kortleggja olíulekann. Verða notaðar þyrlur og flugvélar í þeirri vinnu. Þá verður olía hreinsuð upp en myndir frá vettvangi sína fugla útataða í olíu. Staðfest hefur verið að gat kom á tvo olíutanka Goðafoss en nú er útlit fyrir að gat sé einnig á þeim þriðja.

Mikill straumur og lélegt skyggni hefur gert köfurum erfitt um vik að athafna sig. Gylfi Sigfússon, forstjóri eimskips, bað norsku þjóðina afsökunar í gær á slysinu og sagði að fyrirtækið myndi gera allt sem í þess valdi stæði til að koma í veg fyrir frekara mengunarslys.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×