Innlent

15 metra reglunni frestað meðal annars vegna snjókomu

Ruslakall. Myndin er úr safni.
Ruslakall. Myndin er úr safni.
Sorpílát við heimili sem eru meira en 15 metra frá sorphirðubíl verða ekki sótt eftir 1. maí nema ráðstafanir hafi verið gerðar samkvæmt tilkynningu frá borgaryfirvöldum.

Ætlunin var að þessi breyting tæki gildi 1. apríl en umhverfis- og samgönguráð frestaði því til 1. maí þar sem tafir hafa orðið á mælingum vegna snjókomu og til að gefa íbúum betri kost á að taka ákvörðun.

Mælingar á veglengdinni hófust í febrúar en þeim var frestað í mars sökum veðurs. Búist er við að þær hefjist fljótlega aftur. Bréf mun berast þeim sem bregðast þurfa við. Kostirnir eru að: íbúar flytji tunnurnar nær bílum á sorphirðudögum, kaupi viðbótarþjónustu eða færi sorpgerðin.

Nýlega var spurt í skipulagsráði við hvað ætti að miða við þegar ný staðsetning sorpgerða væri ákveðin. Byggingafulltrúinn í Reykjavík mun veita nákvæmar upplýsingar til þeirra sem ætla að flytja sorpgerði. Svar til hvers og eins hvílir meðal annars á upplýsingum um byggingár húsa, hvort í gildi sé deiliskipulag á svæðinu með sérákvæðum o.s.frv.

Líklegt má þó telja að í nýrri byggingarreglugerð, sem nú er unnið að, verði ákvæði sem veitir minniháttar mannvirkjagerð og smávægilegum breytingum eins og flutningi á sorpgerðum undanþágu frá byggingaleyfi.

Skipulags- og byggingarsvið mun veita allar frekari upplýsingar og verða íbúum innan handar með leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi flutning sorpgerða í síma 411 1111.

Sorphirða Reykjavíkur veitir allar aðrar upplýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×