Innlent

Jafnréttisstofa: Óskandi að forsætisráðherra lúti úrskurðinum

Valur Grettisson skrifar
Kristín Ástgeirsdóttir.
Kristín Ástgeirsdóttir.
„Það er auðvitað slæmt að svona gerist," segir Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu sem annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á Íslandi í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Stofan heyrir undir félagsmálaráðherra.

Kristín segir úrskurð kærunefndar jafnréttismála gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, vissulega áfellisdóm. En ráðherrann var úrskurður brotlegur gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar Arnar Þór Másson var ráðinn sem skrifstofustjóri á nýrri skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í ráðuneytinu.

Anna Kristín Ólafsdóttir sótti einnig um starfið en fékk ekki, þrátt fyrir að vera jafnhæf samkvæmt úrskurði kærunefndarinnar. Þá kom fram í úrskurðinum að af 54 skrifstofustjórum stjórnarráðsins eru aðeins sextán þeirra konur.

„Ráðuneytið getur gert tvennt; það getur fallist á úrskurðinn eða verið ósammála honum. Þá er dómstólaleiðin ein fær," segir Kristín. Spurð hvort það sé ekki eðlilegt að ráðuneytið gangi fram með góðu fordæmi og lúti úrskurðinum svarar hún:

„Það fer eftir málavöxtum. Auðvitað vildi maður óska þess að það væri farið eftir úrskurðinum. En ef aðilar eru ósammála þá verður að leysa þann ágreining með einhverjum hætti."

Kristín segir boltann hjá ráðuneytinu sem hyggst boða Önnu Kristínu á sinn fund og þar verða sjónarmiðin reifuð. Aðspurð segir Kristín að ein af mögulegum niðurstöðum af þeim fundi gæti verið sú að ráðuneytið viðurkenni úrskurðinn og greiði Önnu þá hugsanlega bætur.

Spurð hvort það dragi ekki alvarlega úr áhrifum kærunefndarinnar ef forsætisráðuneytið hunsi úrskurðinn svarar Kristín: „Ef viðkomandi er algjörlega ósammála þá hafa þeir rétt á því að verja sig."

Ráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem fram kom að forsætisráðuneytið teldi að faglega hefði verið staðið að undirbúningi og skipun Arnars.

Þá er tekið fram í tilkynningunni að ekki reyni á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nema talið sé að tveir umsækjendur af sitt hvoru kyninu séu jafn hæfir. Að mati ráðuneytisins var hins vegar ekki svo í þessu tilviki.

„Í þessu sambandi skal bent á að kærandi var fimmti í röð í hæfnismati eftir tvær umferðir viðtala við umsækjendur," segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Formenn þingflokkanna funda nú um úrskurð kærunefndarinnar. Vænta má niðurstöðu innan skamms um málið.


Tengdar fréttir

Valtýr svarar Jóhönnu og sakar hana um árásir

Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari hefur á vefsíðu embættisins svarað Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sem sagði hann fara með rakalausar dylgjur í sinn garð og hvatti hann til að skýra mál sitt. Forsaga málsins er sú að Valtýr gaf í skyn á dögunum í ræðu að forsætisráðherra hefði skipt sér með óeðlilegum hætti af störfum ákæruvaldsins með ýmsum ummælum sem hann taldi óábyrg. Að hans mati réðst Jóhanna á hann með óviðeigandi og tilefnislausum hætti.

Jóhanna vísar á bug að hafa brotið jafnréttislög

Forsætisráðuneytið telur að faglega hafi verið staðið að undirbúningi og skipun Arnars Þórs Mássonar sem skrifstofustjóra á nýrri skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í ráðuneytinu. Þetta kemur fram í tilkynningu sem ráðuneytið hefur sent frá sér. Kærunefnd jafnréttismála komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna þegar hún skipaði Arnar í stöðuna.

Þorgerður Katrín: Hrokafull og aumingjaleg yfirlýsing

„Hvað verður gert annað en að senda frá sér hrokafulla og aumingjalega yfirlýsingu?," spyr Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í framhaldi af því að Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra væru sek um brot gegn jafnréttislögum. Forsætisráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í dag þar sem því var vísað á bug að jafnréttislög hefðu verið brotin og sagt að fagmannalega hafi verið staðið að ráðningu skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu. Þorgerður Katrín tók málið upp í umræðum á Alþingi í dag um störf þingsins. Ragnheiður E. Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fordæmdi einnig brot forsætisráðherra og vakti athygli á því að Jóhanna er ekki aðeins ráðherra jafnréttismála heldur mælti hún fyrir jafnréttislögunum á þingi á sínum tíma. Þá vildi Ragnheiður meina að Jóhanna hefði ekki axlað ábyrgð og að hún benti á alla aðra en sjálfa sig í málinu. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist líta brot á jafnréttislögum jafn alvarlegum augum og brot á öðrum lögum. Hún sagði málið grafalvarlegt og bindur hún vonir við að því verði fylgt eftir innan ráðuneytisins og stjórnsýslunnar „með tilhlýðlegum hætti," hvort sem það er með lagabreytingum eða öðrum. Hið minnsta sé nauðsynlegt að farið verði að úrskurðinum, sem að hennar mati er vel rökstuddur og afdráttarlaus




Fleiri fréttir

Sjá meira


×