Innlent

Ein leiksýning á mann

Ballið á Bessastöðum er eitt þeirra leikrita sem nú er sýnt í Þjóðleikhúsinu
Ballið á Bessastöðum er eitt þeirra leikrita sem nú er sýnt í Þjóðleikhúsinu
Samanlagður fjöldi gesta á leiksýningar leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga innanlands var 416 þúsund á síðasta leikári. Það jafngildir því að hver landsmaður hafi séð eina leiksýningu á leikárinu.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Áhorfendum á síðasta leikári fjölgaði um 61 þúsund frá því á leikárinu á undan, eða um 17 af hundraði. Á síðasta leikári voru færðar á fjalirnar 236 uppfærslur á vegum leikhúsa, leikhópa og leikfélaga, sem sýndar voru 2.352 sinnum.

Heildarfjöldi gesta leikhúsa, leikhópa og félaga á leikárunum 2000/2001- 2009/2010 er sýndur á meðfylgjandi mynd. Inni í tölum um aðsókn eru gestir á sýningar leikhúsa, leikhópa og leikfélaga í skólum og á innlendar og erlendar gestasýningar.

Uppfærslum fækkar, gestum fjölgar

Á síðasta leikári voru starfrækt fimm atvinnuleikhús með aðstöðu í fjórum leikhúsum. Á vegum þeirra voru tíu leiksvið sem rúmuðu 2.553 gesti í sæti. Leikhúsin settu á svið 76 uppfærslur á eigin vegum eða í samstarfi við aðra. Uppfærslum fækkaði um 17 frá fyrra leikári.

Af tegund einstakra verka sem voru færð á fjalirnar voru leikrit flest, eða 43 talsins. Uppfærslur með verkum eftir íslenska höfunda voru 40, en eftir erlenda 24. Uppfærslur eftir innlenda og erlenda höfunda voru 12.

Samanlagður fjöldi sýninga í leikhúsum á síðasta leikári var 1.196, eða nokkru fleiri en á fyrra leikári. Sýningargestir í leikhúsum voru 305.542, eða tæplega 30 þúsund fleiri en á fyrra leikári.

Sjá nánar á vef Hagstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×