Innlent

Þarf ekki að endurgreiða lóð

Reykjavíkurborg var sýknuð fyrir héraðsdómi af kröfu lóðarhafa um endurgreiðslu.Fréttablaðið/GVA
Reykjavíkurborg var sýknuð fyrir héraðsdómi af kröfu lóðarhafa um endurgreiðslu.Fréttablaðið/GVA
Reykjavíkurborg var í gær sýknuð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af kröfum lóðarhafa í Úlfarsfelli sem vildu að borgin tæki við umræddri lóð og endurgreiddi allt að 22 milljónum króna.

Stefnendur töldu að eftir hrun hafi borginni borið að taka við lóðinni, en borgin bar því við að ekkert í skilmálum varðandi útboð lóðarinnar kvæði á um að lóðarhafar mættu einhliða skila lóðum. Borgin hafði áður samþykkt að þeim sem höfðu fengið lóðum úthlutað á árunum 2007 og 2008 væri heimilt að skila lóðum en byggingarréttur á umræddri lóð var hins vegar boðinn út en ekki úthlutað, árið 2006.

Eftir stjórnsýslukæru úrskurðaði samgönguráðuneyti í fyrra að með þessu hefði borgin brotið gegn jafnræðisreglu með því að mismuna milli rétthafa úthlutunarlóða og útboðslóða.

Héraðsdómur kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á lagalega skyldu borgarinnar og því var hún sýknuð af fjárkröfu stefnenda.

Deilt var um þetta mál í borgarstjórn á sínum tíma þar sem fulltrúar Samfylkingar, sem þá voru í minnihluta, átöldu meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrir að hlíta ekki úrskurði ráðuneytisins.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×