Innlent

Samþykkt öryggisráðs misnotuð

Stefán Pálsson
Stefán Pálsson
„Friði verður ekki komið á eða viðhaldið með loftárásum," segir Stefán Pálsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga. Samtökin vara íslensk stjórnvöld við að styðja loftárásir vestrænna ríkja í Líbíu.

Í yfirlýsingu sem samtökin sendu frá sér í gær segir að ríkin sem nú standa fyrir loftárásum í landinu hafi misnotað samþykki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem heimiluðu flugbann yfir Líbíu.

„Við teljum það mjög varhugavert ef íslensk stjórnvöld ætla að stilla sér upp með þeim herskáu þjóðum sem túlka mjög loðna og almennt orðaða ályktun öryggisráðsins um flugbann sem auðan tékka um að gera megi stórfelldar loftárásir á landið," segir Stefán.

Hann segir að menn ættu að vera búnir að læra að lofthernaður bitnar sérstaklega harkalega á almennum borgurum. Enginn ætti að trúa lengur sögum um að sprengjurnar séu svo nákvæmar að þær hæfi bara hernaðarleg skotmörk.

Spurður hvort vestrænar þjóðir eigi ekki að bregðast við stríðsástandi í landinu með einhverjum hætti segir Stefán að loftárásirnar geri illt verra. Friðarsinnar hafi varað við árásum á Afganistan árið 2001 og Írak 2003, og vari nú við árásum á Líbíu. Þeir hafi haft rétt fyrir sér um Afganistan og Írak, svo vonandi verði tekið mark á þeim nú. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×