Innlent

Ráðuneytið skilar umsögn síðar í vikunni

Sigurður Kári Kristjánsson sagðist hafa sótt fund í Hólabrekkuskóla og fengið beint í æð þá reiði og það óöryggi sem hugmyndir borgarstjórnar Reykjavíkur hefðu valdið.Fréttablaðið/Valli
Sigurður Kári Kristjánsson sagðist hafa sótt fund í Hólabrekkuskóla og fengið beint í æð þá reiði og það óöryggi sem hugmyndir borgarstjórnar Reykjavíkur hefðu valdið.Fréttablaðið/Valli
Menntamálaráðuneytið mun skila umsögn um sameiningaraðgerðir í skólum Reykjavíkurborgar síðar í þessari viku. „Þar leggjum við faglegt mat á tillögurnar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra á Alþingi í gær.

Litið verði til ferða barna milli hverfa, ólíkra stefna í leikskólum sem eigi að sameina og fleiri þátta. Katrín sagði að samkvæmt lögum hefðu sveitarfélög mikið sjálfstæði um hvernig þau höguðu málum um sameiningu og samrekstur grunnskóla, leikskóla og frístundaheimila.

Stefnt væri að 3% niðurskurði í skólum Reykjavíkur enda væri staða sveitarfélagsins þröng rétt eins og staða ríkisins, sem hefði skorið niður um 5% í rekstri framhaldsskólanna á þessu ári. Umsögn ráðuneytisins myndi byggja á faglegu mati og heimildum sveitarfélaga samkvæmt lögum. „Svo hef ég þá pólitísku skoðun að hlífa eigi menntamálum og málefnum barna og ungmenna þegar hugað er að hagræðingu,“ sagði ráðherrann.

Sigurður Kári Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki, spurði hvort ráðherra ætlaði að koma í veg fyrir hugmyndir meirihluta borgarstjórnar sem yllu reiði og óöryggi hjá foreldrum og börnum.- pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×