Innlent

Rík áhersla lögð á trúnað á fundum samráðshópsins

Jónas Fr. Jónsson bar vitni fyrir héraðsdómi í dag.
Jónas Fr. Jónsson bar vitni fyrir héraðsdómi í dag.
Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að rík áhersla hafi verið lögð á trúnað um það sem fram fór á fundum samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað fyrir bankahrunið 2008.

Jónas sat fundina fyrir hönd Fjármálaeftirlitsins en Baldur Guðlaugsson sat þá sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins.  Baldri er gefið að sök að hafa hagnýtt sér með ólögmætum hætti innherjaupplýsingar þegar hann ákvað haustið 2008 að selja öll hlutabréf sín í Landsbankanum, fyrir rúmar 192 milljónir króna.  Fundina sóttu einnig fulltrúar Seðlabankans, forsætisráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins.

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Baldri stendur yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Við skýrslutöku í morgun sagði Baldur að hann gerði skýran greinarmun á trúnaðarupplýsingum og innherjaupplýsingum.  Þá sagðist hann ekki hafa búið yfir neinu sem kallast gætu innherjaupplýsingarí þessu sambandi. Hann vísaði jafnframt til þess að Landsbankanum hefði borið skylda til þess að tilkynna það ef um innherja væri að ræða og sú staðreynd að Landsbankinn hafi ekki tilkynnt um neitt slíkt hafði styrkt Baldur enn í þeirri trú að hann hefði ekki yfir að ráða innherjaupplýsingum heldur aðeins trúnaðarupplýsingum.


Tengdar fréttir

Aðalmeðferð yfir Baldri hafin

Aðalmeðferð er hafin í máli ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Baldur er ákærður fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi, fyrir að hafa með ólögmætum hætti nýtt sér upplýsingar sem hann hafði, umfram aðra, þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum fyrir um 192 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×