Erlent

Fann 500 ára gamla bók á háaloftinu

Bókin er haganlega myndskreytt.
Bókin er haganlega myndskreytt.
Bandarískur maður fann fimm hundruð ára gamla þýska bók á háaloftinu heima hjá sér. Í ljós kom að bókin hafði verið á háaloftinu í tugi ára.

Það var á dögunum sem íbúi í mormónaríkinu Utah fór til fornbókasala og bað hann um að verðmeta gamla bók sem hann fann á háaloftinu heima hjá sér. Í ljós kom að bókin sem maðurinn hafði undir höndum var þýska bókin Nürnberg krónikan, sem var gefin út árið 1493.

Bókin er skrásett af sagnfræðingnum Hartmann Schedel og fjallar um sögu heimsins. Meðal annars er minnst á heimspekinginn Aristóteles í bókinni.

Þrátt fyrir háan aldur bókarinnar þá er hún ekki beinlínis sjaldgæf. Þá var hún að auki í afar slæmu ástandi. Því er ekki búist við því að eigandinn fái mikið meira en 50 þúsund dollara fyrir bókina, eða fimm milljónir króna.

Hefði bókin hins vegar verið í góðu ástandi hefði maðurinn getað fengið allt að eina milljón dollara fyrir gripinn. Fornbókasalinn segir sjaldgæft að svo gamlar bækur berist inn á hans borð, það væru helst gamlar mormónabækur sem fyndust á háaloftum í Utah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×