Erlent

Vilja láta endurskoða Schengen-samstarfið

Ítalir og Frakkar vilja endurskoða Schengen-sáttmálann með hliðsjón af því ástandi sem skapast hefur þegar tugir þúsunda flóttamanna hafa streymt frá Túnis og fleiri ríkjum Norður-Afríku til Ítalíu.

Talið er að hátt í 30 þúsund flóttamenn hafi komið til Ítalíu á undanförnum vikum. Ítalir hafa leyft þúsundum þeirra að halda áfram til Frakklands. Í flestum tilfellum eru þetta Túnisar sem hafa ætlað að fara til ættingja sinna í Frakklandi en frönsk stjórnvöld hafa sent marga þeirra til baka.

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti gekk í gær á fund Silvios Berlusconis, forsætisráðherra Ítalíu, þar sem þeir lögðu til hliðar deilur sínar um innflytjendamál og stóðu saman í kröfu sinni um endurskoðun Schengen-sáttmálans.

Fréttastofa BBC greindi frá því í gær að bæði Sarkozy og Berlusconi séu undir þrýstingi frá öfgasinnuðum hægri öflum í heimalöndunum sem vilji stemma stigu við ört vaxandi straumi flóttamanna til landanna.

„Ef sáttmálinn á að vera í gildi þarf að endurskoða hann,“ sagði Sarkozy í gær. Berlusconi sagði nauðsynlegt að setja varnagla eða ákvæði inn í sáttmálann til að bregaðst við kringumstæðum líkum þeim sem nú væru uppi og vísaði til ólgunnar í Norður-Afríku. Við slíkar aðstæður, þegar mikill fjöldi flóttamanna streymdi til Evrópu, væri nauðsynlegt að koma á vegabréfaskoðun við innri landamæri álfunnar.

Eftir fundinn sögðust Sarkozy og Berlusconi hafa sent sameiginlegt bréf til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem óskað væri eftir því að sáttmálinn yrði endurskoðaður á fundi sambandsins í júní.

Markmið Schengen-sáttmálans, sem tók gildi árið 1995, er að auðvelda fólki að ferðast innan Schengen-svæðisins með því að afnema vegabréfaskoðun á innri landamærum þess. Öll Evrópusambandsríkin fyrir utan Bretland og Írland eru þátttakendur í Schengen en auk þeirra hafa Noregur, Ísland og Sviss skrifað undir sáttmálann.

Schengen-samstarfið hefur átt undir högg að sækja undanfarið. Fyrir nokkrum mánuðum stóðu Frakkar og Þjóðverjar meðal annarra fyrir því að hamla þátttöku Búlgaríu og Rúmeníu í samstarfinu. trausti@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×