Íslenski boltinn

Fimmtándi sigur Stjörnunnar í röð - Harpa með tvö gegn gömlu félögunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Íslandsmeistarar Stjörnunnar héldu sigurgöngu sinni áfram í Pepsi-deild kvenna í dag með því að vinna 5-0 sigur á nágrönnum sínum í Breiðabliki í lokaumferðinni. Stjörnustúlkur fengu síðan Íslandsbikarinn afhendan í leikslok en þetta var fimmtándi deildarsigur liðsins í röð.

Harpa Þorsteinsdóttir skoraði tvö mörk á móti sínum gömlu félögum og endaði því tímabilið á því að skora fimm mörk í síðustu tveimur leikjum liðsins. Hún gerði þrennu í 7-1 sigri á móti Grindavík á dögunum.

Ashley Bares kom Stjörnunni í 1-0 eftir hálftíma leik með sínu 21. marki í sumar og þannig var staðan í hálfleik. Bares vann gullskóinn í ár með þó nokkrum yfirburðum.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir skoruðu síðan mark með tveggja mínútna millibili í upphafi seinni hálfleiks og sigurinn var þá svo gott sem í höfn.

Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir (72. mínúta) og Harpa Þorsteinsdóttir (79. mínúta) bættu síðan við mörkum og kórónuðu það með frábært tímabil í Garðabænum.

Stjarnan endaði því tímabilið á því að vinna alla leiki sína í júní, júlí, ágúst og september en eina tap liðsins í Pepsi-deildinni í ár kom á móti Val í lok maímánaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×