Körfubolti

Tvö heitustu liðin mætast í DHL-höllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
J´Nathan Bullock mætir Keflavík í fyrsta sinn í dag.
J´Nathan Bullock mætir Keflavík í fyrsta sinn í dag.
Suðurnesjaliðin Grindavík og Keflavík mætast í DHL-höllinni í dag í úrslitaleik Lengjubikars karla en þau unnu undanúrslitaleiki sína í gærkvöldi. Grindavík vann 80-66 sigur á Þór en Keflavík vann 93-88 sigur á Snæfelli. Leikurinn hefst klukkan 16.00 og verður einnig í beinni útsendingu á Sporttv.

Það er óhætt að segja að þarna mætist heitustu liðin í karlakörfunni, Grindavík er búið að vinna fimmtán fyrstu leiki tímabilsins og Keflavíkurliðið er búið að vinna sex síðustu leiki sína í Iceland Express deildinni og Lengjubikarnum.

Þetta verður þriðji úrslitaleikur Grindavíkur og Keflavíkur í fyrirtækjabikarnum en þau mættust einnig í úrslitaleikjunum 1998 og 2002. Í báðum þessum úrslitaleikjum stýrði Sigurður Ingimundarson Keflavíkurliðinu til sigurs og hann er einnig við stjórnvölinn hjá Keflavík í dag.

Keflvíkingar endurheimta stórskyttuna Magnús Þór Gunnarsson úr banni fyrir þennan leik og það er mikill liðstyrkur að fá hann ferskan inn í liðið á nýjan leik.

Liðin hafa mæst einu sinn í Iceland Express deildinni í vetur en Grindavík vann þá 86-80 sigur. Bæði liðin hafa bætt við sig erlendum leikmanni síðan þá. Grindavík fékk til sín J´Nathan Bullock sem var með 25 stig og 17 fráköst í sigrinum á Þór í gær. Keflavík bætti hinsvegar við sig leikstjórnandanum Steven Gerard Dagustino sem var með 26 stig og 8 stoðsendingar í sigrinum á Snæfelli í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×