Innlent

Fréttaskýring: Enginn ráðherra sagt af sér eftir að hafa tapað dómsmáli

Árni Magnússon
Árni Magnússon
Fréttaskýring: Hafa ráðherrar sagt af sér eftir að dómar hafa gengið gegn ákvörðunum þeirra? Spjót hafa staðið á Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra eftir hæstaréttardóm sem gekk henni í mót á dögunum.

Þar var ákvörðun hennar um að samþykkja ekki þann hluta aðalskipulags Flóahrepps er varðar væntanlega Urriðafossvirkjun, ógilt. Ýmsir hafa kallað eftir afsögn Svandísar, en hún hefur sjálf neitað því að um sé að ræða áfellisdóm yfir henni og hyggst sitja sem fastast á stóli. Sömuleiðis hefur forsætisráðherra lýst yfir stuðningi við Svandísi og telur málið ekki kalla á afsögn.

Nokkur dæmi eru um að dómar hafi gengið gegn ákvörðun ráðherra án þess að hafa orðið til þess að viðkomandi hafi þurft að segja af sér embætti.

Til dæmis féll dómur í Hæstarétti árið 2005, gegn embættisfærslum Árna Magnússonar, þáverandi félagsmálaráðherra, eftir að hann vék Valgerði Bjarnadóttur úr embætti framkvæmdarstýru Jafnréttisstofu.Dómurinn taldi ráðherra hafa vanvirt meðalhófsreglu auk þess sem hann hafi með framferði sínu miðað að því að „komast hjá [því] að fylgja lögboðinni málsmeðferð".

Ríkið var dæmt til greiðslu skaðabóta að upphæð sex milljónir króna, en Árni sat í ráðherrastóli fram á næsta ár þegar hann hætti í stjórnmálum af eigin hvötum.

Lögfræðingurinn Arnar Þór Stefánsson hefur kynnt sér þess konar mál og ritaði meðal annars grein í Úlfljót um ógildingu stjórnvaldsákvarðana. Hann segir enga hefð fyrir afsögn ráðherra í þessum efnum.

Spurningin um ábyrgð ráðherra snýst fyrst og fremst um að greina á milli pólitískrar ábyrgðar og lagalegrar. Engu að síður er það líka matsatriði hvenær ráðherra hefur í raun farið svo á skjön við lög að hann beri skýra lagalega ábyrgð.

Trausti Fannar Valsson, lektor í stjórnsýslurétti við lagadeild Háskóla Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið að ekki sé óeðlilegt að ráðherrar reki mál fyrir dómstólum til að leysa úr vafa á lagatúlkun.

„Stjórnvöldum er falið að framfylgja lögum, en í sumum málum getur komið upp vafi um túlkun.Að láta reyna á slíkt fyrir dómstólum er á engan hátt ómálefnalegt af hendi stjórnvalda. Í flestum tilfellum er hins vegar mjög fjarlægt að ráðherra beri lagalega ábyrgð á slíku, nema ef talið sé að ráðherra hafi ef til vill misbeitt valdi sínu með því að knýja á um einhverja meðferð máls fyrir dómstólum."

thorgils@frettabladid.is

Svandís svavarsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×