Innlent

Föst í hjólastól eftir mislukkað fitusog

Inga Ósk Guðmundsdóttir "Ég er í eðli mínu bjartsýn,“ segir hún. "En vissulega varpar það skugga á lífið að vera snögglega kippt út úr samfélaginu til frambúðar.“
Inga Ósk Guðmundsdóttir "Ég er í eðli mínu bjartsýn,“ segir hún. "En vissulega varpar það skugga á lífið að vera snögglega kippt út úr samfélaginu til frambúðar.“ MYND/GVA
„Ég gekk inn á Borgarspítalann, alveg grandalaus, og útskrifaðist þaðan tæpu ári síðar í hjólastól."

Þetta segir Inga Ósk Guðmundsdóttir, rúmlega sextug kona sem kveðst vera „fangi læknamistakanna".

Inga Ósk var á biðlista eftir svokallaðri svuntuaðgerð og var kölluð inn á Landspítala 8. október 2008. Aðgerðin átti að minnka umfang kviðar og tog hans á bakið.

„Mér var sagt að til væri önnur tegund aðgerðar, svokallað fitusog, sem væri minna inngrip, með öllu hættulaus og miklu betri til árangurs," rifjar Inga Ósk upp.

Hún fór því í fitusogsaðgerð og var send heim daginn eftir. Tveimur dögum síðar kom hún á bráðamóttöku vegna kviðverkja, þá komin með háan hita.

Við rannsókn sást gat á görn, sem rakið var til fitusogsins, og var hún skorin upp til að sauma fyrir það. Þrem dögum síðar þurfi að skera hana aftur og í kjölfarið þurfti að gera á henni „fjöldamargar aðgerðir og skiptingar á kviðarholsskurði," eins og því er lýst í skýrslu Sjúkratrygginga Íslands. Hægðir láku stöðugt í umbúðir á kvið.

Inga Ósk var fárveik á þessum tíma, lá á gjörgæslu með sýkingar, fór í öndunarbilun, gerður var barkaskurður, hún var í öndunarvél vikum saman og fékk blóðtappa í fótinn. Um tíma var ástand hennar tvísýnt og bað spítalinn um fund með fjölskyldu hennar.

Smátt og smátt fór hún þó að ná sér og var þá flutt á endurhæfingardeild Landspítalans. Þjálfun þar reyndist erfið, meðal annars vegna þess að enn tæmdust hægðir í umbúðirnar á maganum. Á endanum fór Inga Ósk í enn eina aðgerðina, þar sem hluti af görnunum var numinn brott. Hún var einnig mikið veik eftir þessa aðgerð og þurfti meðal annars að fara í ástungu vegna vökvamyndunar í brjóstholi. það var ekki fyrr en 17. júlí 2009 sem hún útskrifaðist frá endurhæfingardeildinni á Grensási.

„Afleiðingar af þessu urðu meðal annars þær að ég missti minnið að mestu leyti," segir hún. Inga Ósk var 75 prósent öryrki vegna gigtar áður en hún fór í fitusogið. Á spítalann ók hún á eigin bíl en er nú bundin hjólastól. Sjúkratryggingar töldu hæfilegar bætur henni til handa 1,3 milljónir króna með vöxtum. Þær fóru til kaupa á rafmagnshjólastól og fleiri nauðsynlegum hjálpartækjum.

„Þetta er smánarlegt," segir Inga Ósk um bæturnar og hyggst leita réttar síns.jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×