Innlent

Segja allt stefna í að íslensk hafsvæði verði óvarin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sjómannafélag Íslands segir allt stefna í að íslensk hafsvæði verði óvarin og eftirlitslaus í sumar þar sem bæði varðskipin Ægir og Týr verði á fjarlægum hafsvæðum. Sjómannafélagið segir að Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar hafi upplýst að búið sé að gera samkomulag við Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins, hafi samið um að senda skip og flugvélar til fjarlægra hafsvæða í sumar.

Sjómannafélagið segir að þessi þróun sé varhugaverð og brjóti gegn lögum um Landhelgisgæsluna þar sem segi að starfsvæði Landhelgisgæslunnar sé hafið umhverfis Ísland.

Þá segir Sjómannafélag Íslands að undanfarið hafi staðið yfir samningar sjómanna við fulltrúa Landhelgisgæslunnar vegna áforma um að senda varðskip til óróasvæða í Miðjarðarhafinu. Landhelgisgæslan hafi fengið fyrirspurn frá Frontex um að senda varðskip og flugvél til eftirlits vegna óróa í Líbíu og í öðrum löndum í N-Afríku. Samningar hafi ekki náðst enda hafi ríkisvaldið sýnt mikla óbilgirni í viðræðum við fulltrúa sjómanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×