Innlent

Ætla ekki að vinna með ESB

haraldur Bændasamtökin treysta ekki stjórnvöldum til að gæta hagsmuna landsins í aðildarviðræðum við ESB, að sögn formannsins. Fréttablaðið/Teitur
haraldur Bændasamtökin treysta ekki stjórnvöldum til að gæta hagsmuna landsins í aðildarviðræðum við ESB, að sögn formannsins. Fréttablaðið/Teitur
Bændasamtökin ætla ekki að taka fulltrúa sinn úr samningahópi um landbúnaðarmál í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, ESB. Þetta segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna.

Á Búnaðarþingi samtakanna í fyrrakvöld kom fram að þau muni ekki taka þátt í vinnu við útfærslu á sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB í tengslum við aðildarviðræður stjórnvalda. Á þinginu var ályktun lögð fram sem kveður á um að Ísland og íslensk stjórnvöld hafi fullt frelsi frá reglum og stefnu ESB til að ríkisstyrkja landbúnað og að heimilt verði að leggja tolla á búvörur frá ESB-ríkjunum.

„Það liggur í ályktuninni að við treystum ekki íslenskum stjórnvöldum til að gæta hagsmuna okkar,“ segir Haraldur og bætir við að fulltrúa Bændasamtakanna hafi aldrei liðið vel í samstarfshópi um landbúnaðarmál. Allir hafi komist í hópinn sem eftir því óskuðu og nú væru í honum fleiri en í öðrum samningahópum.

„Landbúnaðarhópurinn er mjög stór og sérkennilega samsettur. Það er ekki hægt að sjá hvers vegna hann ætti að geta útfært þær lágmarkskröfur eða samningsmarkmið miðað við samsetningu hans,“ segir Haraldur. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×