Innlent

Tíu íslenskar bækur gefnar út hjá Amazon vestanhafs

Halldór Guðmundsson. Fréttablaðið/Anton
Halldór Guðmundsson. Fréttablaðið/Anton
„Við erum býsna montin af þessu," segir Halldór Guðmundsson, verkefnisstjóri Sögueyjunnar, sem er annað heiti á heiðursaðild Íslands að bókasýningunni í Frankfurt í haust.

Bandaríski netrisinn Amazon hefur stofnað útgáfufyrirtækið Amazon Crossing sem ætlar að gefa út tíu bækur eftir tíu íslenska höfunda í Bandaríkjunum á næsta ári. Bækurnar verða bæði prentaðar og gefnar út í Kindle-rafbókarformi. Í tilefni af bókasýningunni í Frankfurt hefur Amazon Crossing einnig ákveðið að gerast samstarfs- og styrktaraðili Sögueyjunnar á sýningunni. Þar verður útgáfuáætlun þeirra kynnt með myndarbrag.

„Þeir höfðu samband og óskuðu eftir því að vera með okkur í þessu. Þeir telja að það sé alltof lítið gefið út af þýddum bókum í Bandaríkjunum," segir Halldór. „Miðað við hvað þeir selja í öðrum löndum af þýðingum eru þeir sannfærðir um að markaðurinn sé mikið stærri fyrir þýðingar í Bandaríkjunum. Forlagið þeirra byrjaði í nóvember og þeir hafa ákveðið að gera verulega bragarbót hvað varðar íslenskar bókmenntir."

Amazon Crossing, sem einbeitir sér að þýddum bókum, mun sjálft sjá um að velja íslensku bækurnar og mun það gerast á næstu mánuðum. „Þetta er að þeirra frumkvæði og í því felst heilmikið traust við okkar starf," segir Halldór og telur þetta afar gott tækifæri fyrir íslenska höfunda, enda er Amazon í raun stærsta bóksölufyrirtæki heims.

Bækur höfunda á borð við Halldór Laxness, Ólaf Jóhann Ólafsson, Arnald Indriðason og Yrsu Sigurðardóttur hafa verið gefnar út í Bandaríkjunum. En miðað við stærð Amazon-fyrirtækisins er ljóst að tækifæri íslenskra höfunda til að ná aukinni athygli vestanhafs er stærra en nokkru sinni fyrr. „Mér finnast þetta mjög góðar fréttir því bandaríski markaðurinn er yfirleitt mjög torsóttur," segir Halldór. „Með örfáum undantekningum hefur bandaríski markaðurinn að mestu verið lokaður íslenskum bókmenntum og hér með opnast því frábært tækifæri. Það að eitt forlag taki sig til og gefi út tíu bækur í einu eftir tíu mismunandi höfunda hefur aldrei gerst áður."

freyr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×