Innlent

Sviðsetning sýndi fram á sakleysi Ólafs

Ólafur Helgason var handtekinn, grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína Hallgerði Valsdóttur, fyrr í þessum mánuði. Áverkar og aðkoman í íbúð þeirra þóttu þess eðlis að eitthvað óeðlilegt hefði átt sér stað. Ólafur var handtekinn og sat í gæsluvarðhaldi í viku en var látinn laus þegar allt þótti benda til að lát eiginkonu hans hefði ekki borið að með voveiflegum hætti.

Björgvin Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar hjá Lögreglunni í Reykjavík, staðfesti í samtali við fréttastofu í morgun að meðal þess sem hreinsað hefði Ólaf af grun var sviðsetning á dánarvettvangi. Með aðstoð þýsks réttarmeinafræðings var farið yfir atburðarrásina eins og Ólafur mundi best og segir Björgvin að sú aðgerð hafi varpað skýrara ljósi á hvað hefði átt sér stað.

Hann sagði jafnframt að bráðabirgða niðurstaða krufningar leiddi í ljós að Hallgerður hefði ekki látist vegna áverka. Nú bíður lögreglan eftir niðurstöðum úr blóðrannsóknum áður en endanlega sé hægt að segja til um dánarorsök.

Bróðir Ólafs, Helgi Helgason, sagði í fréttum okkar í gær að þessir atburðir hefðu tekið þungt á fyrir aðstandendur bæði Ólafs og Hallgerðar en þau giftu sig aðeins viku áður en Hallgerður lét lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×