Innlent

Flug gæti raskast í næstu viku

Vinnustöðvun flugvirkja vofir yfir Icelandair á miðvikudaginn í næstu viku.
Fréttablaðið/Vilhelm
Vinnustöðvun flugvirkja vofir yfir Icelandair á miðvikudaginn í næstu viku. Fréttablaðið/Vilhelm
Flugvirkjafélag Íslands boðar vinnustöðvun hjá Icelandair eftir viku náist ekki að gera nýjan kjarasamning fyrir þann tíma. Leggja á niður vinnu milli klukkan sex og tíu að morgni dagana 8. til 10. júní.

 

Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, myndi vinnustöðvun flugvirkja raska áætlunarflugi Icelandair þá daga. „Við höfum trú á því að það náist saman í þessum viðræðum enda hefur flugvirkjum verið boðinn sambærilegur samningur við það sem aðrar stéttir og landsmenn hafa verið að fá í samningum,“ segir Guðjón.

 

Flugvirkjar segjast jafnvel munu fara í verkfall náist ekki samningar. Það myndi hefjast 20. júní. Í fyrravor höfðu flugvirkjar hafið verkfall á miðnætti þegar sett voru bráðabirgðalög á aðgerðir þeirra undir morgun. Samningur sem gerður var nokkru síðar rann út 31. janúar á þessu ári.

 

Maríus Sigurjónsson, varaformaður Flugvirkjafélagsins, segir ekkert nýtt hafa komið fram í málinu í langan tíma. Flugvirkjar vilji knýja viðsemjendur sína til að ljúka málinu. „Ég trúi því að hjá þeim sem þekkja málið vel sé í raun og veru vilji til að semja. En á meðan svona hlutir fara í gegnum Samtök atvinnulífsins eru þeir erfiðari og þyngri í vöfum.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×