Innlent

Sjálfstæðismenn mótfallnir kerfisbreytingum

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á sæti í stjórn ÍTR.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á sæti í stjórn ÍTR. Mynd/Valli
Sjálfstæðismenn í Reykjavík segjast ekki geta fallist á tillögu borgarstjóra um að sameina menntasvið borgarinnar við leikskólasvið og tómstundahluta íþrótta- og tómstundasviðs. Illa hafi verið unnið að málinu af hálfu meirihlutans og óskir um eðlilegt samráð við minnihluta borgarstjórnar og hagsmunaaðila í borginni hundsaðar. Þetta kemur fram í umsögn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ÍTR um fyrirliggjandi tillögu borgarstjóra.

„Ætla mætti að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefði lært af því hversu illa hefur verið staðið að breytingum á skólahaldi í borginni sl. vetur en það virðist öðru nær. Skóla- og frístundastarf í Reykjavík er í uppnámi vegna vanhugsaðra stjórnkerfisbreytinga meirihlutans. Óvönduð vinnubrögð, mikill flýtir og lítið samráð við hagsmunaaðila hafa einkennt þær breytingar á skólahaldi í borginni, sem meirihlutinn hyggst ná fram og hið sama gildir um breytingar á frístundastarfi,“ segir í umsögn sjálfstæðismanna.

Þar kemur einnig fram að á sama tíma og meirihluti Besta flokks og Samfylkingar samþykktu umfangsmiklar breytingar á skólahaldi þrátt fyrir mikla andstöðu borgarbúa, hafi komið fram nýjar breytingartillögur á yfirstjórn þess málaflokks, sem beri hitann og þungann af þjónustu við börn og ungmenni. „Engin formleg vinna átti sér stað í umræddum fagráðum né stjórnkerfisnefnd um þessar breytingar áður en þær voru lagðar með hroðvirknislegum hætti fyrir borgarstjórn og samþykktar þar þrátt fyrir að málið væri vanreifað. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla þessum vinnubrögðum og benda á að með þeim var veikur grunnur lagður að áframhaldandi vinnu málsins eins og nú hefur komið í ljós.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×