Gagnrýni

Meistari hylltur í Hörpu

Trausti Júlíusson skrifar
Óttar Felix Hauksson sá um forsönginn í uppklappslaginu Like A Rolling Stone. Mynd/Jóhann Ísberg
Óttar Felix Hauksson sá um forsönginn í uppklappslaginu Like A Rolling Stone. Mynd/Jóhann Ísberg
Bob Dylan-heiðurstónleikar. Silfurberg, Harpan 28. maí.

Það var troðfullt hús í Silfurbergi á laugardagskvöldið þegar Memfismafían ásamt hópi söngvara flutti lög eftir Bob Dylan í tilefni af 70 ára afmæli hans. Maður heyrir stundum að lög Dylans séu fín, ef einhver annar syngur þau, en það er auðvitað rugl. Það syngur enginn Dylan betur en hann sjálfur. Hins vegar er Dylan einn af öflugustu laga- og textahöfundum sögunnar og margar eftirminnilegar útgáfur til af tónlist hans í meðförum annarra.

Tónleikarnir á laugardagskvöldið voru ágætlega heppnaðir. Söngvararnir skiptust á að syngja, ýmist með hljómsveitinni eða einir með kassagítarinn. Stuck Inside Of Mobile With The Memphis Blues Again var flott í meðförum Sigurðar Guðmundssonar, KK túlkaði Girl From The North Country af næmni, Lay Low var frábær í It Ain't Me Babe og Björgvin Halldórsson gaf sig allan í Forever Young. Mér fannst Bubbi yfirkeyra Just Like A Woman, en það er auðvitað bara mín skoðun. Helgi Björns hefur oft verið betri, en það var samt kraftur í Thunder On The Mountain hjá honum og bandinu. Dylan-sveitin Slow Train tók tvö lög og skilaði sínu ágætlega.

Tónleikarnir stóðu í tæpa þrjá tíma og rúmlega tuttugu lög voru spiluð. Hápunktar voru útgáfa Páls Rósinkrans af Hurricane sem var síðasta lag fyrir hlé, samsöngur systranna Ólafar og Klöru Arnalds í Mr. Tambourine Man, tilfinningahlaðin útgáfa Þorsteins Einarssonar Hjálmasöngvara af I Shall Be Released og uppklappslagið, Like A Rolling Stone. Í því komu allir listamenn á svið og sungu saman, en skipuleggjandi tónleikanna Óttar Felix Hauksson sá um forsönginn.

Dylan talar ekki á milli laga sjálfur, en Ólafur Páll Gunnarsson kynnti hvert lag og söngvara á laugardagskvöldið. Ætli orðafjöldinn hjá Óla á tónleikunum hafi ekki verið svona álíka og hjá Dylan á öllum tónleikum samanlagt síðustu tuttugu ár.

Á heildina litið var þetta góð kvöldstund. Það er til siðs í fínustu tónleikahúsum heims að hylla meistara tónlistarsögunnar. Einn þeirra var hylltur í Hörpu á laugardagskvöldið.

Niðurstaða: Dylan-aðdáendur fögnuðu sjötugsafmæli átrúnaðargoðsins á skemmtilegum tónleikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×