Innlent

Hrafnistumenn standa við fullyrðingar um lyfjastuld

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hrafnista í Reykjavík.
Hrafnista í Reykjavík.
Yfirmenn Hrafnistu vísa á bug fullyrðingum lögmanns fyrrverandi starfsmanns Hrafnistu sem vikið var úr starfi á dögunum fyrir meintan lyfjastuld. Í yfirlýsingu sem Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, og Hrönn Ljótsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Kópavogi, sendu frá sér segir að starfsmaðurinn hafi víst játað fyrir þeim verknaðinn.

Þau segja að yfirlýsing lögmannsins sé því miður til þess fallin að kasta rýrð á verkferla og starfsemi Hrafnistu sem og að gera stjórnendur Hrafnistu tortryggilega. Þau fullyrða jafnframt að ábyggileg gögn liggi fyrir í málinu ásamt játningu starfsmannsins. Á fundi með yfirmönnum Hrafnistu, trúnaðarmanni stéttarfélags viðkomandi starfsmanns og fulltrúa frá öryggisfyrirtæki, sem starfar með Hrafnistu í málum sem þessum, hafi starfsmaðurinn viðurkennt að hafa tekið ófrjálsri hendi nokkurt magn lyfseðilsskyldra lyfja úr lyfjaskáp Hrafnistu.

„Verkferlar Hrafnistu eru mjög skýrir og öll mál hljóta formlega meðferð í samræmi við eðli máls hverju sinni. Á þeim er tekið af ábyrgð og engin mál hljóta þann framgang sem þetta tiltekna mál sýnir nema fyrir liggi borðleggjandi staðreyndir. Með játningu viðkomandi starfsmanns lauk jafnframt málinu að hálfu Hrafnistu en allur þjófnaður á Hrafnistuheimilunum varðar brottrekstri úr starfi. Í framhaldinu var málið tilkynnt til lögreglu auk Landlæknisembættisins og Lyfjastofnunar. Starfsfólk Hrafnistu hefur svo auðvitað aðstoðað þessa aðila eftir þeirra óskum við frekari rannsókn málsins,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá segjast stjórnendur Hrafnistu harma þau óþægindi sem umfjöllun um málið hafi valdið starfsfólki, heimilisfólki og ættingjum íbúa Hrafnistuheimilanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×