Innlent

Farþegum Strætó fjölgar um 17%

Farþegum Strætó hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári samkvæmt mælingum Strætó bs.

Þegar bornir eru saman fyrstu fjórir mánuðir ársins í ár og sömu mánuðir í fyrra nemur fjölgunin 16,9%.

Ef þessi aukning helst út árið má búast við að farþegafjöldi Strætó fari yfir níu milljónir á þessu ári en á síðasta ári var farþegafjöldinn um átta milljónir. Mælingar Strætó á auknum fjölda farþega eru studdar með sölutölum, en sala hefur verið nokkuð meiri það sem af er ári heldur en á sama tíma í fyrra, að teknu tilliti til gjaldskrárhækkana um síðustu áramót.

Rannsóknir Strætó bs. á strætónotkun benda til þess að þessi aukning skýrist einkum af því að þeir sem nota strætó geri það mun oftar nú en þeir gerðu áður. Þetta má til dæmis sjá á því að samkvæmt könnunum Capacent Gallup hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins sem taka strætó daglega fjölgað úr 4,0% í 7,5% á síðastliðnum tveimur árum, sem þýðir að fjöldi daglegra notenda hefur nær tvöfaldast á tímabilinu. Hins vegar stendur hlutfall þeirra, sem segjast aldrei nota strætó, í stað milli þessara tveggja ára og því ljóst að Strætó bs. þarf að laða nýja notendur að þjónustunni í auknum mæli eigi að fjölga notendum enn frekar á næstu misserum.

Kerfið á mörkum þess að anna eftirspurn

„Við fögnum því að farþegar strætó séu farnir að nýta þjónustuna betur og vonandi heldur þessi þróun áfram. Við finnum fyrir auknum áhuga hjá almenningi og það er greinilegt að sífellt fleiri nýta sér þjónustuna reglulega. En við þurfum líka að bregðast við aukinni notkun. Hagræðingarkrafan sem gerð hefur verið á fyrirtækið síðustu misseri og í ár hefur það í för með sér að strætókerfið er á mörkum þess að anna eftirspurn, sérstaklega á annatímum," segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.

Tækifæri fyrir ríki og borg til að efla almenningssamgöngur

„Það væri bagalegt, að nú þegar áhugi og vilji almennings til að nota almenningssamgöngur er að aukast, að geta ekki ýtt enn frekar undir það með því að efla þjónustuna í takt við aukna eftirspurn. Við teljum að nú sé kjörið tækifæri fyrir ríki og sveitarfélög að skapa umhverfi fyrir frekari vöxt og viðgang almenningssamgangna og að fjárfestingar í þeim hafi forgang við ráðstöfun fjármagns til samgangna," segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Strætó bs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×