Innlent

Ritstjóri Séð og heyrt ætlar ekki að verða stressbolti fyrir þrítugt

Lilja Katrín Gunnarsdóttir er nýr ritstjóri Séð og heyt.
Lilja Katrín Gunnarsdóttir er nýr ritstjóri Séð og heyt. Mynd/Vilhelm
„Þetta gerist hratt, það var bara talað við mig og ég ákvað að kýla á þetta - stinga mér ofan í djúpu laugina,“ segir Lilja Katrín Gunnarsdóttir, blaðamaður og leikkona, sem var ráðin ritstjóri Séð og heyrt á dögunum.

Lilja Katrín hefur starfað á blaðinu með hléum frá árinu 2006, auk þess að hafa verið blaðamaður á Fréttablaðinu og DV um tíma. „Ég er því farin að kunna þetta ágætlega,“ segir hún. „Þetta leggst mjög vel í mig, ég tek nú ekki formlega við þessu fyrr enn á mánudaginn svo ég er að reyna að fá góðar hugmyndir fyrir blaðið. Þetta verður bara skemmtilegt, svolítil breyting að vera orðin ritstjóri, en það verður bara gaman að takast á við þetta verkefni.“

Séð og heyrt er mest lesna tímarit landsins og segist Lilja Katrín reyna hugsa sem minnst um það. „Ég ætla bara að halda áfram að gera skemmtilegt blað. Ég er að reyna innleiða bjartsýna hugsun í minn heila og tek því bara einn dag í einu - ég ætla ekkert að fara hugsa um hvað þetta er stórt. Ég nenni ekki að verða stressbolti fyrir þrítugt,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×