Skoðun

Sú er mín bæn

Kjartan Jóhannsson skrifar
Ég drúpi höfði og græt með Noregi, aðstandendum, vinum og þjóðinni allri. Aldrei fyrr hef ég þurft að syrgja svo marga unga menn og konur í blóma lífsins, deydd fyrir áhuga sinn á að bæta heiminn, sitt eigið samfélag og afnema misrétti hvarvetna þar sem það birtist.

Þessi hugsjón er sterk, henni fær ekkert haggað. Ódæðisverkið verður að vera hvatning til þess að virða hugsjónina og gera betur. Aðeins þannig verður rétt við brugðist og minningu unga hugsjónafólksins sómi sýndur.

Vondir atburðir sem stefnt er gegn hinu góða, skilningi okkar á hvert öðru og viðleitninni til þess að brúa bil, mega ekki hrekja okkur af leið.

Öllu fremur verða hinir hörmulegu atburðir í Noregi að efla okkur öll, ekki bara í Noregi, heldur hvarvetna, til þess að vinna gegn skorti á umburðarlyndi og í andstöðunni við ofstopa, þjóðháttarembu og afsprengi þeirra í kynþáttahatri og ofbeldi.

Ungmennamorðin í Noregi eru verk vitfirrts manns, en hugarfarið fann sér einhvern veginn vaxtarskilyrði. Gegn slíkum jarðvegi verður að bregðast, hvar sem hann birtist. Öfgafull umræða, hróplegar einkunnir um vondar eigindir þeirra sem eru á annarri skoðun en skríbentinn geta spillt samfélaginu og vísað þeim sem öfgar hrífa í vondan stað og illar gerðir. Þess vegna er okkur öllum skylt að gæta hófs í orði og æði.

Ég veit að hatrið og hefndin eru eðlileg viðbrögð við unglingamorðunum. Það má samt ekki taka völdin yfir hugum okkar og hjörtum. Hugsjónir fórnarlambanna eru huggunin, ekki viðhorfið til hins illa geranda. Bæn mín er sú, að Norðmenn, Íslendingar og allir hinir skilji þetta og tileinki sér.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×