Innlent

Hinn grunaði áður dæmdur fyrir nauðgun

Maðurinn situr nú í gæsluvarðhaldi til 2. september, grunaður um að hafa nauðgað ungri konu á Þjóðhátíð í Eyjum.
Maðurinn situr nú í gæsluvarðhaldi til 2. september, grunaður um að hafa nauðgað ungri konu á Þjóðhátíð í Eyjum.
Hálfþrítugur karlmaður sem situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa nauðgað ungri konu á Þjóðhátíðarsvæðinu í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina síðustu, hefur hlotið dóm fyrir að nauðga ungri stúlku á tjaldsvæði.

Maðurinn var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2006 og til að greiða fórnarlambinu eina milljón króna. Hæstiréttur lækkaði fangelsisrefsinguna niður í átján mánuði og skaðabæturnar niður í 800 þúsund krónur.

Það var að morgni laugardagsins 2. júlí 2005 sem stúlka kom á lögreglustöð og skýrði frá því að sér hefði verið nauðgað um morguninn. Gat hún lýst nauðgaranum, sem hún kvaðst kannast við af tjaldstæði í Hrossabithaga í Hornafjarðarbæ, þar sem hún hefði tjaldað. Kvað hún hann hafa komið til sín og vina sinna og beðið sig að „koma að labba“. Þegar þau komu að trjálundi rétt hjá lét maðurinn til skarar skríða, neyddi hana til kynferðismaka og reyndi að hafa við hana samræði. Hann hélt um háls hennar, þannig að af hlutust áverkar, og reif í hár hennar meðan á nauðguninni stóð.

Stúlkan greindi frá því fyrir dómi að maðurinn hefði hlegið að henni eftir athæfið og hótað að drepa hana segði hún frá. Stúlkan fór beint til lögreglunnar og þaðan á heilsugæslustöð. Henni leið afar illa eftir atburðinn. Í vottorði sálfræðings sagði að hún hafi verið mjög óörugg og hrædd, verið viðkvæm, grátgjörn og viljað forðast að hitta fólk. Það varð til þess að hún treysti sér ekki til að fara í skóla um haustið eins og hún hafði ætlað.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×