Innlent

Nýi vegurinn milli Flúða og Reykholts malbikaður

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hinn nýi Bræðratunguvegur yfir Hvítá, milli Flúða og Reykholts, verður allur kominn með bundið slitlag á morgun en þar unnu menn af kappi í dag við að malbika síðustu metrana.

Opnun nýju brúarinnar yfir Hvítá hjá Bræðratungu var raunar fagnað í desember og hafa bílar því ekið þarna um undanfarna átta mánuði. Það átti hins vegar eftir að klára veginn sem tengir brúna við þjóðvegakerfið, alls átta kílómetra. Vegurinn hefur því verið grófur og ökumenn þurft að aka rólega til að skemma ekki bílana.

En það horfir nú til bóta. Klæðningarflokkur frá Borgarverki, undirverktaka Ræktunarsambands Flóa og Skeiða, vann í dag við að klæða síðusta kílómetrana, þann kafla sem er Flúðamegin brúarinnar, en fyrr í sumar var búið að malbika kaflann Biskupstungnamegin. Þetta er raunar bara fyrra malbikslagið en það síðara kemur á fyrir sumarlok.

Með brúnni og nýja veginum styttast leiðir verulega innan uppsveita Suðurlands, þannig styttist vegurinn milli stjórnsýslukjarnanna Flúða og Reykholts um 26 kílómetra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×