Innlent

Munu skila fyrir lok mánaðar

Stjórnlagaráðsmenn munu ræða breytingartillögur við drög að nýrri stjórnarskrá á næstunni.
Stjórnlagaráðsmenn munu ræða breytingartillögur við drög að nýrri stjórnarskrá á næstunni. Mynd/GVA
Tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá eru nær fullmótaðar og stefnir ráðið á að skila Alþingi tillögu sinni fyrir lok júlí. Fjölmargar breytingar á núgildandi stjórnarskrá eru lagðar til í drögunum.

Drögin geta enn tekið breytingum þar til þeim verður skilað, segir Salvör Nordal, formaður stjórnlagaráðs.

„Það eru komnar fram talsvert margar breytingartillögur sem við munum ræða, og væntanlega verða greidd atkvæði um flestar tillögurnar,“ segir Salvör.

Stjórnlagaráð á að gera tillögu um meðferð málsins hjá Alþingi, en Salvör segir því ólokið. Þær tillögur verði kynntar þegar verki stjórnlagaráðs ljúki 29. júlí.

Í drögunum er meðal annars gert ráð fyrir því að ráðherrar víki af þingi og varamenn komi í þeirra stað. Þá er gert ráð fyrir að hver einstaklingur geti bara gegnt hverju ráðherraembætti í átta ár.

Stjórnlagaráð vill einnig að forseti Íslands sitji í mesta lagi í þrjú fjögurra ára kjörtímabil og að forseti Alþingis verði hans eini staðgengill. Þá vill ráðið ný ákvæði um náttúru- og auðlindamál.

Í drögunum eru 111 greinar, en í núgildandi stjórnarskrá eru þær 80 talsins. Stjórnlagaráð á eftir að taka tvær umræður um drögin áður en þeim verður skilað. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×