Innlent

Össur kærir sig kollóttan um gagnrýni frá Ísrael

Heimir Már Pétursson skrifar
Utanríkisráðherra er gangnrýndur harðlega í Ísrael fyrir heimsókn sína til Miðausturlanda og sagður sýna Ísrael fjandskap og hroka. Ráðherra segir utanríkisstefnu Íslands ekki fjandsamlega Ísrael, en Íslendingar styðji hins vegar stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Heimir Már Pétursson.

Manfred Gerstenfeld formaður Miðstöðvar um almannatengsl í Jerúsalem fer hörðum orðum um Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í tengslum við heimsókn hans til Gaza og annarra staða í miðausturlöndum á dögunum.

Hann hafi til dæmis vandlega forðast öll diplomatísk samskipti við Ísrael í tengslum við heimsókn sína. Samskipti landanna í tíð núverandi vinstristjórnar á Íslandi séu hreinlega slæm. Íslensk stjónvöld sýni Ísrael umtalsverðan hroka. Össur sé fulltrúi lands sem hafi valdið gríðarlegum fjárhagslegum skaða í öðrum löndum en telji sig þess umkominn að segja Ísraelum hvernig þeir eigi að haga sínum málum. Svo eitthvað sé nefnt af gagnrýni hans.

„Ég geri ekkert fyrir grein þessa manns sem meðal annars fer háðulegum orðum um Ísland út af ógæfu okkar í bankahruninu og eiginlega kennir okkur líka um Eyjafjallagosið. Það má lesa það úr grein hans," segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

Hann megi hins vegar hafa sínar skoðanir. Íslendingar hafi á sínum tíma mælt fyrir stofnun Ísraelsríkis hjá Sameinuðu þjóðunum. „Þannig að við höfum líka ákveðinn siðferðilegan rétt til að segja þeim hvað okkur finnst miður fara hjá þeim," segir utanríkisráðherra. En hefur utanríkisstefna Íslands gagnvart Ísrael breyst í tíð núverandi ríkisstjórnar? „Við höfum tekið miklu harðar upp málstað Palestínu en áður. Það liggur alveg ljóst fyrir," segir Össur.

Hann hafi ekki legið á þeirri skoðun hjá Sameinuðu þjóðunum og annars staðar að Íslendingar styðji stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Utanríkisstefna Íslands sé ekki fjandsamleg Ísraelum.

„Nei, hún er alls ekki fjandsamleg Ísraelum. Miklu frekar má segja að við séum sá vinur sem segir þeim til vammsins. Við viðurkennum tilvistarrétt Ísraels en teljum líka að Palestína eigi sinn tilvistarrétt á þessum slóðum," segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×