Innlent

Morðtilraun á veitingahúsi í Reykjavík

Mynd/Pjetur
Karlmaður var stunginn lífshættulega í hálsinn svo slagæð rofnaði á veitingastað við Laugaveg um miðnætti. Skömmu áður var tilkynnt um að óður maður gengi þar berserksgang , vopnaður hnífi, og ógnaði öllum innandyra.

Margir lögreglumenn og þrír sjúkrabílar voru sendir á vettvang, en þá var árásin um garð gengin. Þolandanum hafði þá þegar blætt mikið og var aðkoman skelfileg, að sögn lögreglu.

Maðurinn var þegar fluttur á slysadeild Landspítalans í Fossvogi þar sem læknum tókst að stöðva blæðinguna og er maðurinn nú í öndunarvél á gjörgæsludeild.

Lögregla handtók árásarmanninn á vettvangi og verður hann yfirheyrður í dag. Ekki liggur fyrir hvort krafist verður gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir honum. Óljóst er hvort árásarmaðurinn taldi sig eiga eitthvað sökótt við þolandann eða hvort tilviljun réði hver varð fyrir hnífstungunni. Málið er rannsakað sem stórfelld líkamsárás. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×