Innlent

Bensín- og olíugjöld myndu lækka

Kristján L. Möller
Kristján L. Möller
Við upptöku veggjalda, til að standa straum af kostnaði af umfangsmiklum vegaframkvæmdum á suðvesturhluta landsins, var ætlunin að lækka olíu- og bensíngjöld.

Þetta kom fram í máli Kristjáns L. Möller, þáverandi samgönguráðherra, í umræðum á Alþingi síðastliðið sumar.

Lýsti hann yfir að taka bæri upp rafræna innheimtu í gegnum gervihnött. „Þá falla öll önnur gjöld niður, eins og olíugjöld og bensíngjöld, og verður aðeins um eitt gjald að ræða,“ sagði hann í ræðunni.

Kristján, sem fór fyrir viðræðunefnd stjórnvalda við lífeyrissjóðina um fjármögnun framkvæmdanna, segir að verði fallið frá áformum um að innheimta veggjöld á þeim leiðum sem um ræðir, sé einsýnt að framkvæmdir við þær taki tuttugu ár eða meira en ekki fjögur. „Þessu var stillt upp þannig að hægt yrði að ráðast í þetta á þremur til fjórum árum með þessum hætti. Hinn valkosturinn er að gera þetta á sirka tuttugu til 25 árum.“

41 þúsund skrifuðu undir mótmæli FÍB gegn vegtollum.

Kristján kveðst vel skilja að svo margir hafi skrifað undir. Sjálfur hefði hann getað hugað sér að mótmæla vegtollum ofan á bensín- og olíugjöld. „Það er hins vegar svo að frjálslega er farið með ýmsar staðreyndir í þessu máli, meðal annars þessa. Það er grundvallaratriði að þessi gjöld lækki á móti veggjaldinu.“- bþs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×