Innlent

Vilji til að stofna nýtt stjórnmálaafl stjórnlagaráðsfulltrúa

Þórhildur Þorleifsdóttir, leikstjóri og stjórnlagaráðsfulltrúi útilokar ekki að vilji sé meðal stjórnlagaráðsfulltrúa að stofna nýtt stjórnmálaafl. Breyta þurfi vinnubrögðum í íslenskum stjórnmálum og sú umræðupólitík og sátt sem einkenndi stjórnlagaráðið sé góður grunnur til að byggja á.

Nú er vika síðan stjórnlagaráð samþykkti drög að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Þó skiptar skoðanir séu á drögunum að stjórnarskránni hafa vinnubrögð stjórnlaráðs vakið athygli, þó hart hafi verið deild um ýmis mál var farin leið sáttar og drögin samþykkt samhljóða.

„Og það eru vinnubrögð sem ég held að sé kallað eftir." segir Þórhildur. „Meðal annars ástæðan fyrir því vantrausti sem almenningur hefur á stjórnmálamönnum, að horfa upp á þennan sífellda skotgrafahernarð, þar sem allir hafa rétt fyrir sér. Stjórnmálamenn þurfa að hlusta á að þeim er ekki treyst."

Þórhildur segir það ekki koma sér á óvart að valdastéttin taki breytingum á stjórnarskránni með fyrirvara.

„Við höfum óskað eftir að þetta fari í þjóðaratkvæði til að þjóðin fái að segja sitt. Það verður ekki að lögum við það. Ég vona að fræðingar séu ekki orðnir svo miklir fræðingar að þeir tilheyri ekki þjóðinni."

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að einstaka fulltrúar í stjórnlagaráði hafi viðrað þá hugmynd að stofna stjórnmálaflokk, byggðan á því vinnulagi sem reyndist svo vel við gerð draganna að nýju stjórnarskránni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×